Hoppa yfir valmynd
11. desember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Íslendingar leiðandi í baráttu gegn mengun sjávar

JoninaBj0104
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra

Nýlega lauk ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn mengun sjávar frá landi sem haldin var í Peking. Ráðstefnan byggist á samstarfi ríkja heims sem hófst í Washington í Bandaríkjunum árið 1995 þegar áætlun um varnir gegn mengun hafsins frá landi, Global Programme of Action (GPA) var samþykkt. Íslendingar hafa lagt mikla áherslu á þetta samstarf og áttu stóran þátt í stofnun þess. Meðal annars bauð íslenska ríkisstjórnin til síðasta undirbúningsfundar áætlunarinnar í mars 1995.

Árangur Íslendinga til fyrirmyndar

Um áttatíu prósent þeirrar mengunar sem finnst í hafinu má rekja til starfsemi sem fram fer á landi, svo sem landbúnaði, iðnaði og íbúabyggð.

Á Íslandi erum við laus við mörg þeirra mengunarvandamála sem aðrar þjóðir glíma við. Þannig er næringarefnamengun frá landbúnaði ekki til staðar hér og við erum að mestu laus við iðnaðarmengun. Það er hins vegar ánægjulegt að segja frá því að við höfum tekið okkur á þar sem þess hefur reynst þörf. Það kemur fram í skýrslu sem tekin var saman fyrir ráðstefnuna í Peking og fjallar um árangur Íslendinga við að framfylgja alþjóðlegu áætluninni síðastliðin fimm ár.

Þannig hefur hlutfall íbúa hér á landi sem búa við skólphreinsun hækkað úr 30% árið 2001 í 70% árið 2006. Endurnýting úrgangs hefur einnig vaxið mikið hér á landi, m.a. með tilkomu Úrvinnslusjóðs.

Hvað varðar ástand mengunar á hafsvæðinu við Ísland, þá er mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna og þungmálma lítil en er hinsvegar víða um heim verulegt vandamál. Geislavirkni í hafinu mælist mjög lítil á íslensku hafsvæði en nauðsynlegt er að við höldum vel vöku okkar gagnvart allri losun frá Sellafield kjarnorkuendurvinnslustöðinni.

Röskun búsvæða á hafsbotni er lítið þekkt hér við land þar sem hafsvæðið umhverfis landið er afar stórt og lítt rannsakað. Það stendur hins vegar til bóta og Hafrannsóknarstofnunin vinnur nú að fjölgeislamælingum á hafsbotni. Rannsóknarverkefnið BIOICE, sem er sameiginlegt verkefni nokkurra innlendra rannsóknastofnana og háskóla með þátttöku erlendra vísindamanna, er á lokastigi. Ég hef óskað eftir auknum fjárveitingum til að ljúka verkefninu og styrkja áframhaldandi rekstur rannsóknarstöðvar BIOICE í Sandgerði og að byggja upp góðan gagnagrunn sem má t.d. nýta til verkefna sem tengjast verndun og skynsamlegri nýtingu lífríkisins í hafinu og vöktun þess.  

Þess má einnig geta að fyrir skömmu úrskurðaði umhverfisráðuneytið að umfangsmikil efnistaka af hafsbotni í Kollafirði skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Sú niðurstaða er mjög í anda markmiða áætlunarinnar þar sem efnistaka af hafsbotni getur haft veruleg áhrif á lífríki á og umhverfis námasvæðin.

Áhersla lögð á aðstoð við þróunarríki

Á ráðstefnunni í Peking var samstaða um að leggja aukna áherslu á að draga úr mengun hafsvæða sem liggja að þróunarríkjum, sér í lagi smáum eyríkjum. Vegna bágs efnahags eiga mörg slík ríki erfitt með að bregðast við þeim umhverfisógnum sem að þeim steðja. Sum þeirra hafa sett fram metnaðarfullar áætlanir og gert grein fyrir stöðu mála en skortir fé til framkvæmda. Til að aðstoða þau við að ná tökum á mengunarvandamálunum er starfandi sjóður á vegum Sameinuðu þjóðanna, Hnattræni umhverfisbótasjóðurinn (Global Environment Facility), sem styrkir verkefni á þessu sviði. Alþjóðabankinn hefur einnig lánað mikið fé til verkefna sem miða að því að koma í veg fyrir mengun hafs og stranda og hafa t.d. Kínverjar fengið háar upphæðir að láni frá bankanum til að koma fráveitumálum sínum í lag.

Þátttaka Íslands og forysta í gerð og framkvæmd alþjóðlegu áætlunarinnar um varnir gegn mengun sjávar frá landi, hefur sýnt að Ísland getur haft mikil áhrif í alþjóðlegu starfi að málefnum hafsins. Það hefur tvenns konar tilgang, annars vegar að beina sjónum frekar að alvarlegri hnignun vistkerfa hafsins vegna mengunar og hins vegar að tryggja vernd íslenska hafsvæðisins gegn mengun frá öðrum ríkjum sem hingað kunna að berast langa leið með vindum og hafstraumum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta