Mat á verkefnum ríkisins
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 7. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Mikilvægt er að ráðuneyti og stofnanir ríkisins endurmeti reglulega fyrirkomulag verkefna sinna, enda þarf ríkið stöðugt að leita leiða til að bæta árangur í ríkisrekstri og laga starfsemi sína að breytingum í samfélaginu, sem og í ríkiskerfinu sjálfu.
Markaðurinn kann t.d. að vera orðinn fær um að annast verkefni sem eitt sinn þótti nauðsynlegt að ríkið sinnti og eins getur þörfin fyrir tiltekin verkefni breyst með tímanum og hugsanlega horfið. Jafnframt er nauðsynlegt þegar ný verkefni eru tekin upp hjá ríkinu að fram fari kerfisbundið mat á því hvernig hagkvæmast er að sinna þeim. Æskilegt er að slíkt mat fari skipulega fram og stuðst sé við samræmda aðferðafræði.
Í ljósi þessa hefur framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins útbúið svokallaðan gátlista sem gert er ráð fyrir að ráðuneyti og stofnanir fylgi við mat á fyrirkomulagi verkefna sem ríkið sinnir nú þegar og verkefna sem til athugunar er að það sinni. Gátlistanum er skipt í fjóra hluta og samanstendur af 24 spurningum.
Í fyrsta hluta eru fjórar spurningar um markmið verkefnisins. Þar er metin þörfin á því að verkefninu sé yfir höfuð sinnt.
Í öðrum hluta eru sex spurningar sem snúa að því hvort gild rök eru fyrir þátttöku ríkisins í viðkomandi verkefni.
Í þriðja hluta eru níu spurningar til þess að meta hvers eðlis þátttaka ríkisins skuli vera í verkefninu ef svör við öðrum hluta hafa leitt í ljós að hún er nauðsynleg. Þarf ríkið að sinna verkefninu sjálft eða er hægt er að fela það öðrum aðilum þrátt fyrir t.d. að ríkið beri kostnaðinn að hluta eða öllu leyti?
Í fjórða hluta eru loks fimm spurningar varðandi fyrirkomulag verkefnis sem ríkið skal annast alfarið sjálft. Þar er dregið fram hvernig skipulagi verkefnisins skuli háttað og hvernig því verði best fyrir komið innan ríkisins.