Hoppa yfir valmynd
11. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Svar við fyrirspurn um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur svarað fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur alþingismanns um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Hann segir það vera markmið sitt að biðtími eftir greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði innan ásættanlegra marka á árinu 2008.

Svarið var svohljóðandi:

Hæstvirtur forseti.

Það hefur áður kom fram í umræðum hér á Alþingi að tilvísunum til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins hefur fjölgað verulega frá árinu 1999. Á því ári var 150 börnum vísað til greiningar hjá stofnuninni. Árið 2003 voru þau 183 og á síðasta ári 253. Hinn 1. október í ár höfðu borist 193 tilvísanir sem bendir til þess að samtals geti þær orðið um 250 á þessu ári. Hér er aðeins um að ræða nýjar tilvísanir en ár hvert hefur um 30 af eldri skjólstæðingum verið vísað til endurathugunar. Auk þessa hafa kröfur aukist um eftirfylgd og ráðgjöf til skóla og leikskóla vegna þess sem sérfræðingar kalla íhlutun.

Afleiðingin var veruleg fjölgun barna á biðlista stofnunarinnar og biðtími eftir þjónustu lengdist. Í samræmi við áætlun frá árinu 2002 hefur félagsmálaráðuneytið unnið markvisst að því að mæta fjölgun tilvísana. Fleiri starfsmenn hafa verið ráðnir að stofnuninni. Á síðustu þremur árum hefur stöðugildum fjölgað um sjö. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir viðbót sem nemur þremur stöðugildum. Gerð verður tillaga um frekari aukningu á árinu 2008 en þá er gert ráð fyrir því að jafnvægi geti náðst.

Auk fjölgunar starfsmanna hefur verið gerð úttekt á starfsháttum Greiningarstöðvarinnar. Markhópurinn hefur verið betur afmarkaður og verið er að vinna að því að nýta betur niðurstöður frumgreiningar til ráðlegginga um íhlutun fram að því að þverfagleg greining fer fram á stofnuninni. Það er skoðun sérfræðinga að í mörgum tilvikum sé æskilegt að nokkur tími líði á milli frumathugunar og ítarlegri greiningar þar sem það gefi betra svigrúm til að meta framfarir barnsins. Miklar vonir eru bundnar við nánara samstarf sérfræðinga utan Greiningastöðvarinnar sem geti dregið úr þörf fyrir þjónustu hennar. Í þeim tilvikum yrði stofnunin umsagnaraðili um rannsóknarniðurstöður með tilliti til fötlunar hlutaðeigandi barns.

Félagsmálaráðuneytið mun samhliða þeim aðgerðum sem fyrr eru nefndar huga að því gera starfsmönnum stofnunarinnar kleift að viðhalda sérfræðiþekkingu sinni. Í vissum tilvikum hefur skortur á sérhæfðu starfsliði háð starfseminni. Auk fjölgunar starfsmanna verður það því einnig forgangsverkefni komandi ára að tryggja það að sérfræðingar stofnunarinnar kjósi að vinna þar til langframa og fái nauðsynlega sérhæfða þjálfun. Þá þarf að huga verulega að eflingu fræðslu og rannsókna á stofnuninni í samræmi við lög um hana.

Ég mun hér á eftir gera grein fyrir biðlista og biðtíma barna á leik- og grunnskólaaldri í samræmi við þær spurningar sem fram koma í fyrirspurn þingmannsins.

1. Hversu löng bið er eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins:

a. fyrir börn í leikskóla.

Alls eru 71 barn á leikskólaaldri (fæðingarár 2001 til 2004), sem bíða greiningar. Af þeim hópi hafa 14 börn fengið takmarkaða þjónustu sérfræðinga stöðvarinnar og bíða ítarlegri greiningar.

Meðalaldur barna á leikskólaaldri sem bíða eftir þjónustu stöðvarinnar er 3,33 ár. Meðalbiðtími þeirra er 257 dagur. Biðtíminn getur verið frá 34 dögum upp í 570 daga.

Að auki eru á biðlista 5 leikskólabörn sem var vísað vegna gruns um málhömlun, en þau tilheyra ekki markhóp stofnunarinnar og verður tilvísun afgreidd í því ljósi.

b. fyrir börn á grunnskólaaldri.

Alls eru 124 börn á grunnskólaaldri (fæðingarár1991-2000) sem bíða þverfaglegrar greiningar. Að auki bíða 34 grunnskólabörn endurathugunar.

Meðalaldur þeirra, sem bíða fyrstu athugunar er 9,57 ár. Meðalbiðtími þeirra í dag er 473 dagar. Biðtími er frá 45 dögum til 1212 daga.

Meðalaldur þeirra grunnskólabarna, sem bíða endurathugunar, er 10,38 ár. Meðalbiðtími þeirra er 435 dagar. Biðtími er frá 132 til 1228 dagar.

Af þeim 124 börnum á grunnskólaaldri, sem bíða fyrstu greiningar, er grunur um röskun á einhverfurófi hjá 56 börnum, en um þroskahömlun hjá 59 þeirra.

Rúmlega 40 grunnskólabörn eru á biðlista vegna gruns um málhömlun, en þar sem þau tilheyra ekki núverandi markhóp stofnunarinnar, verða mál þeirra unnin í því ljósi.

2. Hvernig er samstarfi Greiningarstöðvarinnar og BUGL háttað hvað varðar greiningu á börnum með einhverfueinkenni og geðræn vandamál?

Þegar barni hefur verið vísað til beggja stofnana (Greiningarstöðvar og BUGL), er leitast við að hafa samráð og haga því þannig til að athugun sérfræðinga beggja stofnana fari fram samtímis. Að lokinni slíkri athugun bera sérfræðingar beggja stofnananna saman bækur sínar og komast að sameiginlegri niðurstöðu um vanda barns og leiðir til úrlausna. Skilgreint er hver sinni eftirfylgd.

BUGL og Greiningarstöð hafa átt nokkra fundi undanfarin tvö ár, þar sem verklag í samstarfs stofnananna hefur verið rætt.

3. Börn, sem er vísað á Greiningarstöð að aflokinni athugun á BUGL:

Þegar barni er vísað af BUGL á Greiningarstöð, fær barnið forgang í athugun, en jafnframt er tekið tilliti til annarra þátta, svo sem alvarleika fötlunar, aldurs barns og hvort barn fær viðeigandi þjónustu fyrir tilstuðlan sérfræðinga BUGL.

Alls eru á biðlista 14 börn á grunnskólaaldri, sem hefur verið vísað að aflokinni athugun á BUGL. Meðalbiðtími þeirra er 461 dagur, minnst 207 dagar, mest 804 dagar.

Eins og að framan greinir hefur félagsmálaráðuneytið á undanförnum árum lagt á það ríka áherslu á að styrkja starf Greiningarstöðvarinnar. Mér er þó ljóst að nokkuð er í land að markmiðin náist að fullu. Í byrjun næsta árs verður þremur af fjórum áföngum áætlunarinnar um fækkun á biðlista lokið og er þá verulegum áfanga náð.

Það er markmið mitt að biðtími eftir greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði innan ásættanlegra marka á árinu 2008.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta