Hækkun atvinnutekna er mismunandi
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 7. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Launabreytingar milli ára sem einstaklingarnir hafa upplifað og koma fram í skattframtölum þeirra eru mjög mismunandi.
Þar koma til einstaklingsbundnar ástæður: einn hefur störf á vinnumarkaðinum að námi loknu; annar hættir að vinna og fer á eftirlaun; einn fær stöðuhækkun og annar verður alvarlega veikur. Allar þessar breytingar leggjast svo saman og úr verður heildarbreyting á laununum. Eins og með svo marga aðra þætti í mannlegu samfélagi er dreifing þessara nær óskyldu stærða mjög reglubundin.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá dreifingu á breytingu atvinnutekna milli áranna 2004 og 2005 hjá öllum hjónum sem greiddu einhverja vexti vegna íbúðarkaupa þessi ár. Um er að ræða rétt rúmlega 40.000 hjón. Rúmlega 2.000 höfðu engar atvinnutekjur fyrra árið meðan um 400 höfðu ekki tekjur seinna árið. Hjá fjórðungi hjóna hækkuðu atvinnutekjur innan við 10% en launavísitalan hækkaði um 7%. Rúmlega 8.000 hjón báru úr býtum milli 10 og 20% meira árið 2005 en árið á undan. Hjá tæplega 10.000 hjónum lækkuðu atvinnutekjur milli ára og um meira en 10% hjá helmingi þess hóps.