Hoppa yfir valmynd
14. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Breytingar á stjórnsýslu Keflavíkurflugvallar undirbúnar

Fyrstu skrefin í þá átt að breyta yfirstjórn Keflavíkurflugvallar hafa þegar verið stigin en þau felast meðal annars í stofnun Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., skipan nefndar sérfræðinga til að undirbúa flutning á stjórnun og rekstri flugvallarins til samgönguyfirvalda og skipan starfshóps til að móta tillögur fyrir samgönguráðherra um framtíðarskipan flugverndarmála á Keflavíkurflugvelli.

FIA fundur
Sturla Böðvarsson er hér við hlið Önundar Jónssonar fundarstjóra. Í ræðustóli er Halldór Sigurðsson.

Þetta kom meðal annars fram í máli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra þegar hann ræddi breytingarnar á opnum fundi sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna og öryggisnefnd félagsins boðaði til í dag. Auk samgönguráðherra töluðu þeir Halldor SIgurðsson, formaður FÍA, Jóhannes Bjarni Guðmundsson, varaformaður FÍA, Ásgeir Pálsson, frá Flugmálastjórn Íslands, flugvallastjóri Keflavíkurflugvallar, Björni Ingi Knútsson og Hilmar Baldursson, flugrekstrarstjóri Icelandair. Fundarstjóri var Önundur Jónsson.

Í upphafi ræðu sinnar sagði samgönguráðherra meðal annars: ,,Við bröttför varnarliðsins síðastliðið haust varð ljóst að huga verður að breyttri skipan á ýmsum sviðum er varða málefni Keflavíkurflugvallar. Sem kunnugt er hefur utanríkisráðuneytið fram til þessa haft forræði yfir þeim málum er varða flugvöllinn og varnarsvæðið, þrátt fyrir að samgönguráðuneytið hafi yfir flestum öðrum samgöngumálum að ráða. Þannig hefur þetta að nokkru leyti þýtt tvöfalt kerfi þar sem Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hefur annast mál er snerta flugvöllinn en Flugmálastjórn Íslands, sem heyrir undir samgönguráðuneytið, annast flugmál landsmanna að öðru leyti og fylgir eftir alþjóðlegu regluverki flugöryggismála. Með brotthvarfi varnarliðsins gefst tækifæri til þess að koma samgöngumálum þjóðarinnar, í lofti, láði og legi fyrir í ráðuneyti samgöngumála.”

Óhagræði að tvöfaldri yfirbyggingu

Þá minnti ráðherra á þá breytingu sem verður á yfirstjórn flugmála í landinu um næstu áramót þegar Flugmálastjórn Íslands verður stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun og Flugstoðir ohf. taka við rekstri flugvalla- og flugleiðsöguþjónustu. Í framhaldi af því sagði ráðherra meðal annars: ,,Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar hefur annast flest þau verkefni sem Flugmálastjórn Íslands sér um annars staðar á landinu. Í mörgum tilvikum hefur ábyrgð og framkvæmd skarast hjá þessum tveimur stofnunum. Þá hefur í raun verið rekin tvöföld yfirbygging á sviði yfirstjórnar flugmála og óhagræði hefur fylgt þessari skörun þar sem einstaklingar og fyrirtæki hafa þurft að eiga samskipti við tvenn stjórnvöld vegna sama málaflokks,” sagði Sturla og bætti við: ,,Það er von mín að aukið samstarf þeirra aðila, sem mesta þekkingu hafa á málaflokknum, komi til með að nýtast í þágu flugsamgangna innan lands og utan.”

Í umræðu um öryggismál nefndi samgönguráðherra að hann myndi beita sér fyrir því að flugbrautin 07/25 (norðaustur-suðvestur braut) yrði opnuð sem fyrst þar sem hún gæti komið að góðum notum í ákveðnum veðurskilyrðum. Einnig nefndi hann rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og sagði að meta yrði hvort og hvernig rekstur hennar félli að þeim rekstri sem Flugstoðir ohf. muni sinna.

Undir lok ræðunnar sagði Sturla Böðvarsson að framtíðarskipan á Keflavíkurflugvelli væri viðamikið verkefni og áhugavert. Raunsæi yrði að ráða för en jafnframt frjótt ímyndunarafl. Ljóst væri að flugið yrði áfram ráðandi þáttur í allri starfsemi á Keflavíkurflugvelli.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta