Stofnun stjórnmálasambands við Búrúndí
Fastafulltrúar Íslands og Búrúndí hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Joseph Ntakirutimana, undirrituðu í New York, fimmtudaginn 14. desember, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Búrúndí er í Mið-Afríku og á landamæri að Rúanda í norðri, Tansaníu í suðri og austri og Lýðveldinu Kongó í vestri. Landið byggja um það bil 7 milljónir íbúa. Búrúndí er fyrrum nýlenda Belgíu og öðlaðist sjálfstæði árið 1962. Í Búrúndí hefur geisað borgarastyrjöld frá árinu 1993 á milli þjóðarbrota hútúa og tútsímanna en skrifað var undir samkomulag um vopnahlé í september 2006.