Hoppa yfir valmynd
18. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Breytingar á hafnalögum til meðferðar á Alþingi

Ýmsar breytingar verða á hafnalögum samkvæmt frumvarpi sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi og er nú til meðferðar í samgöngunefnd þingsins. Fjalla þær meðal annars um skipulagsmál hafna, gjaldskrá og gjaldtökuheimildir. Lagafrumvarpið er byggt á tillögum nefndar sem skipuð var til að endurskoða lögin.

Nefndinni var einnig falið að skoða hag hafna sem teljast mikilvægar í samgöngukerfi landsins og að skoða sérstaklega stöðu skuldugustu hafnanna og koma með tillögur til úrbóta ef ástæða þyki til. Samgönguráðherra hefur ekki tekið afstöðu til hugsanlegra aðgerða vegna fjárhagsvanda hafnanna en falið hafnaráði að fjalla um málið og leggja fram tillögur um framhald þess.

Fjárhagshópur innan endurskoðunarnefndarinnar kannaði afkomu verst stöddu hafnanna og er gerð grein fyrir henni í fylgiskjali með skýrslunni. Kemur þar fram að ekki sé gerð tilraun til að kanna hvers vegna staðan sé svo slæm sem raun ber vitni en talið að það sé vegna raðar áralangra óheppilegra atburða og rangrar ákvarðanatöku.

Hópurinn lagði aðaláherslu á að kanna skuldugustu hafnirnar og lagði til grundvallar rekstrarárangur hafnanna síðustu þrjú árin. Skoðaður var rekstur 13 hafna og þeim skipt í þrjá flokka. Í einum hópnum voru hafnir sem skila framlagi til fjárfestinga og afborgana lána og býr við rekstur í jafnvægi; í öðrum hafnir sem ekki skila framlagi frá rekstri og eru reknar með töluverðum halla og í þriðja hópnum eru hafnir sem skila engu framlagi frá rekstri, eru reknar með umtalsverðum halla og skulda verulega umfram eignir.

Verst stöddu hafnirnar eru í Húsavík, Sandgerði og Reykjanesbæ. Húsavíkurhöfn skuldar 467 milljónir króna, Sandgerðishöfn 394 og Reykjanesbær skuldar 1.915 milljónir vegna hafna. Aðeins Sandgerðishöfn skilar veltufé frá rekstri, 2,3 milljónum króna. Segir í skýrslu fjárhagshópsins að miðað við óbreytt ástand eigi þessir hafnasjóðir enga möguleika á að standa undir þessari miklu skuldsetningu og séu í raun ekki rekstrarhæfir nema að til komi veruleg framlög eða tekjur til að greiða niður skuldir. Tölur fjárhagshópsins eru frá 2004. Þá kemur fram að flestar þessara 13 hafna sem skoðaðar voru séu lífæðin í viðkomandi byggðarlagi og því sé ekki hægt að leggja þær niður. Sveitarfélögin þurfi því að sjá til þess með framlögum eða öðrum tekjum að hafnirnar séu rekstrarhæfar.

Talið er að sveitarfélögin verði að fá aðstoð til að leysa úr fjárhagsvandræðum verst stöddu hafnanna enda hafi þau ekki bolmagn til að fjármagna rekstur þeirra eins og verið hefur með beinum framlögum eða lántöku. ,,Á hvern hátt hægt væri að koma til móts við sveitarfélögin telur hópurinn að um tvær leiðir væri einkum að ræða, þ.e. að ríkissjóður kaupi hluta sveitarfélaga í svokölluðum B flokks höfnum og geri síðan rekstrarsamning við sveitarfélögin um rekstur hafnanna. Annar kostur væri að sett verði upp einskonar reiknilíkan, þar sem reiknað er út hver væri eðlilegur kostnaður við rekstur hafnanna, hafnarsjóðunum verði síðan ætlað að afla ákveðins hluta rekstrarkostnaðarins með sjálfsaflafé á móti beinum framlögum úr ríkissjóði. Hópurinn telur að hvor leiðin sem verði valin eða einhver önnur leið þá verði að setja verulega fjármuni á næstu árum til að rétta af fjárhagsstöðu skuldugustu hafnanna.”

Skýrslu um endurskoðun hafnalaga er að finna hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta