Hoppa yfir valmynd
18. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lög um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga

Alþingi hefur samþykkt lög um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

Lánasjóður sveitarfélaga hefur frá stofnun árið 1967 verið óskipt sameign allra sveitarfélaga á Íslandi og hefur hann haft það hlutverk að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Við setningu laga um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 136/2004 setti Alþingi það skilyrði að hafin yrði vinna við að skilgreina eignarhald á sjóðnum. Þeirri vinnu er nú lokið og ríkti alger samstaða á ársfundi lánasjóðsins sem haldinn var í september sl. um þá skiptingu. Sama má segja um tillögu stjórnar lánasjóðsins um að breyta sjóðnum í opinbert hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga.

Í lögunum felast einkum eftirtaldar breytingar:

  1. Lánasjóði sveitarfélaga verður breytt í opinbert hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga á Íslandi en skipting eignarhalds verður samkvæmt ákvörðun ársfundar lánasjóðsins sem haldinn var í september 2006. Einnig er heimilt að færa eigið fé lánasjóðsins niður um þrjá milljarða króna og skiptast þeir fjármunir milli eigenda í hlutfalli við eignarhluti.
  2. Félagið getur eingöngu verið í eigu sveitarfélaga og stofnana eða fyrirtækja að fullu í eigu þeirra. Hámarks atkvæðisréttur eins hluthafa miðist við 15% og ekki verði nein viðskipti með eignarhluti í tvö ár, þ.e. til ársloka 2008.
  3. Sjóðnum er eingöngu heimilt að lána til verkefna sem fela í sér þjónustu í almannaþágu. Í ljósi þess hlutverks hans að tryggja sveitarfélögum hagstæðustu lánskjör sem fáanleg eru á hverjum tíma er gert ráð fyrir að tiltekin sérákvæði sem um hann gilda verði áfram í lögum. Um er að ræða ákvæði um skattfrelsi sjóðsins og um heimildir sveitarfélaga til að veita lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar fyrir veittum lánum.

Lögin öðlast þegar gildi. Lög nr. 136/2004 um Lánasjóð sveitarfélaga falla úr gildi þegar Lánasjóður sveitarfélaga ohf. tekur til starfa á næsta ári.

Tenging frá vef ráðuneytisinsLög um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta