Staðgreiðsla opinberra gjalda árið 2007
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 40/2006
Fjármálaráðuneytið ákveður staðgreiðsluhlutfall hvers árs og er það samtala af tekjuskattshlutfalli samkvæmt lögum um tekjuskatt og útsvarshlutfalli eins og það er að meðaltali samkvæmt ákvörðunum sveitarstjórna.
Tekjuskattshlutfall á árinu 2007 verður 22,75% sem er lækkun um 1% frá yfirstandandi ári. Meðalútsvar á árinu 2007 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarstjórna verður 12,97% sem er það sama og á yfirstandandi ári. Staðgreiðsluhlutfall á árinu 2007 verður 35,72% samanborið við 36,72% á þessu ári. Lækkun á staðgreiðsluhlutfalli milli ára verður því 1,0.
Sveitarfélögin geta ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,03%. Af 79 sveitarfélögum ætla 61 þeirra að innheimta hámarksútsvar en 3 sveitarfélög verða með lágmarksútsvar.
Áætlað er að á árinu 2007 innheimtist um 165 milljarðar króna fyrir ríki og sveitarfélög með staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar af renna um 92 milljarðar króna til sveitarfélaga en um 73 milljarðar króna til ríkissjóðs.
- Útsvarshlutfall sveitarfélaga 2006-2007 (Excel 28 KB)
Reykjavík 19. desember 2006