Um verðbólgumælingar
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. desember 2006 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Verðbólga er hækkun almenns verðlags yfir tíma.
Vísitala neysluverðs mælir verð á safni varnings og þjónustu sem heimilin greiða reglulega fyrir og er oftast grundvöllur verðbólgumælinga. Þá er öðru fremur miðað við árshraða verðbólgu, en hann er hægt að mæla á grundvelli ólíkra gagna. Oftast er fjallað um tólf mánaða verðbólgu á grundvelli mánaðarlegra gagna eða árlega verðbólgu á grundvelli árlegra gagna. Tólf mánaða verðbólga er mæld á grundvelli vísitölunnar í einum mánuði samanborið við vísitöluna í sama mánuði á fyrra ári. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands miðast við þannig mælda verðbólgu. Þegar horft er til þróunar verðlags yfir lengri tíma er ýmist horft á árlega verðbólgu sem breytingu milli ársmeðaltala eða frá upphafi til loka hvers árs. Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er notast við fyrri skilgreininguna.
Eðli málsins samkvæmt tekur nokkurn tíma fyrir breytingar í áhrifaþáttum verðlags að koma fram í verðlagi og mældri verðbólgu. Dæmi um slíka þætti eru skattar og gengi krónunnar. Að sama skapi geta áhrifin haldist nokkuð lengi eftir að breytingar hafa komið fram. Af þeim sökum er oft gripið til útreikninga sem taka til skemmri tíma en tólf mánaða og sá útreikningur síðan færður á árshraða. Árshraði sem miðast við breytingu á vísitölu milli mánaða gefur skýrari sýn á hvert stefnir í verðþróuninni ef þær áherslur sem þar ráða för eru taldar líklegar til að halda áfram. Með öðrum orðum er verið að gera ráð fyrir að síðasta mánaðarbreyting eigi sér stað í sama mæli næstu tólf mánuði. Þar sem mánaðarbreytingar eru nokkuð sveiflukenndar ber að túlka þær varlega. Minni sveiflur tengjast verðþróun til þriggja eða sex mánaða. Þar er sömu aðferð beitt; ársfjórðungsbreyting eða hálfsársbreyting er látin gilda fyrir allt árið í heild. Þessi leið gefur skýrari mynd af því hver verðþróunin innan árs gæti orðið.
Það sem gerir tólf mánaða verðbólgu að haldbestu mælingunni er að með henni hverfa að miklu leyti sveiflur tengdar árstíðum, sbr. upphaf eða lok útsalna, upphaf eða lok skólaárs, o.s.frv. Aðrar óreglulegar eða undirliggjandi breytingar koma hins vegar fram í þeirri mælingu.
Á meðfylgjandi mynd er sýnd verðbólga á tólf mánaða grundvelli og á milli mánaða, en hvort tveggja er árshraði. Þar má sjá hve miklar sveiflur eru í breytingum á milli mánaða. Til hliðsjónar er sýnd þróun vísitölu neysluverðs, sem hefur undantekningalítið hækkað undanfarin ár. Þá er birtur mögulegur ferill verðbólgunnar á næsta ári til að draga fram áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvöruverði og þar af leiðandi neysluverði. Þau áhrif stöðva ekki undirliggjandi þróun og því mun verðbólga líklega verða nokkur það ár en þó minni en undanfarin misseri. Þó ber að taka slíkum útreikningum með fyrirvara, þar sem mörg atriði sem hafa áhrif á verðþróunina geta orðið önnur en lagt er til grundvallar útreikningnum.