Hoppa yfir valmynd
20. desember 2006 Dómsmálaráðuneytið

Ritað undir smíðasamning um varðskip

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands skrifuðu í dag undir smíðasamning við Carlos Fanta de la Vega, forstjóra skipasmíðastöðvarinnar ASMAR í Chile um smíði á nýju varðskipi.
Aðmíráll Carlos Fanta de la Vega forstjóri ASMAR skipasmíðastöðvarinnar í Chile, Árni Mathiesen, fjármálaráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifa undir samning um smíði á nýju varðskipi.
20.12.06 Þjóðmenningarhús

Hinn 20. desember 2006 rituðu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands undir smíðasamning við Carlos Fanta de la Vega, forstjóra skipasmíðastöðvarinnar ASMAR í Chile um smíði á nýju varðskipi.

Varðskipið verður mun stærra, öflugra og betur búið en þau varðskip sem nú eru í rekstri. Ægir og Týr eru um 71 m á lengd og 10 á breidd og um 1.300 brúttótonn. Nýtt varðskip verður 93 m á lengd, 16 m á breidd og 4.000 brúttótonn. Togkraftur þess verður um 100 tonn miðað við um 56 tonna togkraft á Ægi og Tý. Geta Landhelgisgæslu Íslands (LHG) til að bregðast við, þegar stór flutningaskip eiga í hlut margfaldast enda nauðsynlegt að varðskip geti aðstoðað og bjargað stórum togurum og flutningaskipum ef þörf krefst. Fjöldi í áhöfn nýja varðskipsins verður svipaður og á varðskipum LHG.

Stjórnhæfni skipsins verður mjög góð enda verður það búið alls 3 hliðarskrúfum, snúanlegri framdrifsskrúfu auk tveggja aðalskrúfa. Sérstakt stýrikerfi verður í skipinu (Dynamic positioning system) sem auðveldar mjög stjórn þess og hreyfingar. Þá verður skipið búið nýjustu siglingatækjum, búnaði til að gefa þyrlum eldsneyti á flugi og verið er að skoða hvers konar mengunarvarnarbúnaður verður í skipinu.

Skipasmíðastöðin ASMAR er ríkisfyrirtæki í Chile og sinnir viðhaldi og nýsmíði fyrir flota og á almennum skipasmíðamarkaði. ASMAR hefur alls smíðað 4 skip fyrir Íslendinga og þar er nú verið að smíða einn fullkomnasta togara heims fyrir Færeyinga. Skipasmíðastöðin hefur því aflað sér mikilvægrar reynslu varðandi þær kröfur sem gerðar eru fyrir skip til siglinga á Norður Atlantshafi. Skipið er hannað af Rolls Royce í Noregi og aðalvélar, gírar, skrúfubúnaður, snúanleg framdrifsskrúfa, dráttar- og akkerisvindur svo og allur stjórnbúnaður eru frá Rolls Royce í Noregi. Annar búnaður verður frá viðurkenndum framleiðendum í Evrópu.

Tilboð ASMAR nam 27,8 milljónum evra fyrir utan búnað sem LHG hafði val um að kaupa. Að teknu tilliti til þess að ákveðið var að taka hluta af slíkum búnaði (t.d. snúanlega framdrifsskrúfu) og til nokkurra breytinga sem gerðar voru á hönnun skipsins í skýringaviðræðum þá er samningsverðið 29,4 milljónir evra.

Samkvæmt samningnum er smíðatími skipsins 30 mánuðir og verður því nýtt varðskip komið í flota Landhelgisgæslu Íslands um mitt ár 2009.

Ríkiskaup hafa komið að gerð þessa samnings ásamt fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Landhelgisgæslu Íslands. Carsten Fauner, skipaverkfræðingur, var íslensku nefndinni til ráðgjafar.

Reykjavík, 20. desember 2006

Ræða ráðherra við undirritunina.

 

Tölvuteikningar af tillögu* að fyrirhuguðu varðskipi ásamt teikningum.
Tölvuteikning af nýju varðskipi, skrokkur stefni stjórnborðsmeginTölvugerð mynd af tillögu að nýju varðskipi -
skrokkur stefni stjórnborðsmegin
Tölvuteikning af nýju varðskipi, stefni stjórnborðsmeginTölvugerð mynd af tillögu að nýju varðskipi - 
stefni stjórnborðsmegin
Tölvuteikning af nýju varðskipi, skutur stjórnborðsmeginTölvugerð mynd af tillögu að nýju varðskipi -
skutur stjórnborðsmegin

Teikningar af nýju varðskipi PDF-skjal



 

*Tölvugerðu myndirnar sýna tillögu skipasmíðastöðvarinnar að nýju varðskipi, endanlegar samþykktar geta breytingum frá tillögunum.

Notkun mynda er heimil.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta