Hoppa yfir valmynd
21. desember 2006 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áhrif truflana á fjarskiptatengingar milli Íslands og umheimsins

Þjóðhagslega hagkvæmt er að ráðast í lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu fyrr en síðar og hagkvæmara að ráðast þegar í verkið með þátttöku Færeyinga fremur en fresta lagningu hans. Með tryggu fjarskiptasambandi yrði mögulegt að byggja upp hérlendis alþjóðlega fjármálaþjónustu og gagnaþjónustumiðstöðvar.

Þetta er meðal niðurstaðna í skýrslu sem ParX viðskiptaráðgjöf vann á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar um áhrif sambandsrofa í millilandafjarskiptum og tímasetningu á lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Skýrslan var nýverið kynnt fyrir samgönguráðherra sem óskað hafði eftir því að stofnunin kannaði hver yrðu þjóðhagsleg áhrif þess að truflanir yrðu á fjarskiptasambandi Íslands við umheiminn og leggja mat á þá valkosti sem standa til boða til að auka öryggi fjarskiptatenginga við útlönd.

Í skýrslunni er rakin staða núverandi fjarskipta milli landa, metin fjárhagsleg áhrif seinkunar á lagningu nýs sæstrengs, fjallað um endingartíma Cantat-3, stofnkostnað við nýjan streng og síðan metin þjóðhagsleg áhrif sambandsrofs.

Staðan í dag

Cantat-3 sæstrengurinn, sem er ljósleiðari, var tekinn í notkun í nóvember 1994. Hann tengir saman Kanada, Ísland, Færeyjar, Danmörku, Bretland og Þýskaland. Lagning strengsins var samvinnuverkefni þáverandi ríkisrekinna fjarskiptafyrirtækja í þessum löndum. Áætlaður líftími Cantat-3 er talinn 20 ár og því eru nú átta ár eftir. Óvíst er hvort strengurinn dugar sem varaleið út þann tíma þar sem afkastagetan mun ekki nægja til að mæta hugsanlegri 20% árlegri aukningu næstu árin.

Fram að lagningu Farice-1 ljósleiðarastrengsins, sem komst í gagnið í janúar 2004, voru gervihnettir notaðir sem varaleið. Með tilkomu Farice-1 fara fjarskiptin milli Íslands og annarra landa um sæstrengina tvo. Flest fjarskiptafyrirtæki í landinu tengjast báðum strengjunum og er annar nýttur sem varaleið fyrir hinn að nokkru leyti. Afkastageta þeirra er þó ekki slík að notendur verði þess ekki varir ef annar bilar. Þá kemur fram í skýrslunni að kostnaður við varaleið gegnum gervihnött sé verulega mikill og talið ólíklegt að sú leið gæti annað nauðsynlegu gagnamagni.

Nokkuð hefur verið um bilanir á strengjunum tveimur. Á Cantat-3 hafa bilanir einkum orðið í sjó en á Farice-1 hafa þær verið á landi. Flestar bilanir á Farice-1 urðu frá upphafi rekstrar hans í janúar 2004 til ársloka 2005, alls 24, þar af 22 á leiðinni milli lendingarstaðar í Skotlandi til Edinborgar. Ýmsar úrbætur hafa nú verið gerðar á þeirri leið.

Fjárfesting í nýjum streng

Talið er að nýr ljósleiðarasæstrengur gæti kostað kringum 3,5 milljarða króna en það ræðst talsvert af því hvaða leið verður farin. Þá er talið að til að tryggja enn frekara öryggi Farice-1 strengsins þar sem hann liggur um Norður-Skotland þurfi að leggja í kringum 700 milljóna króna fjárfestingu. Verði hins vegar af lagningu nýs strengs sé minni þörf á því. Gera má ráð fyrir að lagning nýs strengs taki tvö ár. Á því fyrra yrði einkum unnið við botnrannsóknir og annan undirbúning sem gæti kostað kringum 500 milljónir. Aðalfjárfestingin væri síðan kaupin á strengnum og lagning hans á síðara árinu.

Tekjutap og óöryggi vegna sambandsrofs

Beinar tekjur fjarskiptafyrirtækja af samskiptum við útlönd eru taldar vera um tveir milljarðar króna á ári sem þýðir kringum 5,5 milljónir króna á dag. Gert er ráð fyrir að þjónustufyrirtækin verði af þessum tekjum ef samband rofnar. Slitni strengur í sjó getur viðgerð iðulega tekið tvær vikur og því yrði tekjutap fyrirtækjanna kringum 77 milljónir yfir þann tíma.

Einnig kemur fram í skýrslunni það álit að sé ekki unnt að tryggja aukið öryggi í millilandatengingum geti það komið í veg fyrir að ákveðin þjónusta festi rætur hérlendis, svo sem rekstur netvera og gagnaþjónustumiðstöðva fyrir erlenda aðila. ,,Einnig er ólíklegt að hugmyndir um fjármálamiðstöð á Íslandi nái fram að ganga án öruggra fjarskipta,” segir í skýrslunni. Nefnd eru nokkur dæmi um þjónustu sem væri unnt að útfæra með öruggu netsambandi, svo sem á sviði heilbrigðisþjónustu og líftækni, samræmingu framleiðslu og dreifingar alþjóðlegra fyrirtækja, rekstur framleiðslu- og viðskiptakerfa, umsýslu rafrænna viðskipta, afritun og endursköpun gagna og öryggisaðgangs að gögnun fyrir aðila með aðalvefþjóna í öðrum löndum.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir einnig að upplýsingar séu lífæð fjármálastarfsemi og því verði Ísland aldrei miðstöð alþjóðlegrar fjármálastarfsemi nema að tryggð verði trú viðskiptalífsins á að miðlun þeirra gangi snurðulaust fyrir sig. Ólíklegt sé að það takist að óbreyttu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta