Hjálpartækjastyrkir aldraðra hækka – rétturinn rýmkaður
Tryggingastofnun ríkisins fær vel á annan tug milljóna króna viðbótarframlag á ári til að standa undir meiri og betri hjálpartækjaþjónustu við aldraða. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setti í dag reglugerð sem felur í sér að ársframlag til hjálpartækjaþjónustu Tryggingastofnunar ríkisins við aldraða, sérstaklega varðandi öryggishnappa, verður aukið um 16 til 19 milljónir króna á ári á næstu fjögur árin. Þetta er liður í samkomulagi ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara sem gert var 19. júlí sl. Leitað var eftir tillögum hjálpartækjanefndar Tryggingastofnunar ríkisins um það hvernig rýmka mætti rétt aldraðra og reglur um hjálpartæki. Í fyrsta lagi lagði nefndin til að Tryggingastofnun ríkisins yrði heimilt að taka þátt í kaupum á þjónustu viðurkenndrar vaktstöðvar fyrir einstakling eldri en 67 ára sem af heilsufarsástæðum þarf á slíkri þjónustu að halda. Í öðru lagi lagði nefndin til að styrkur Tryggingastofnunar vegna frumuppsetningar á viðvörunarkerfi, sem vaktstöð á og þjónustar og stofnunin hefur samþykkt, yrði hækkaður. Í þriðja lagi lagði nefndin til að einstaklingar 67 ára eða eldri, og fara ekki hjálparlaust allra ferða sinna, geti fengið úthlutað einfaldari gerð af rafknúnum hjólastólum (svokallaðar rafskutlur) til að auðvelda þeim sjálfstæða búsetu að uppfylltum almennum skilyrðum um rafknúna hjólastóla, enda sé ekki bifreið á heimili þeirra. Reglugerð ráðherra tekur mið af tillögum hjálpartækjanefndar.
Sjá reglugerð: Styrkir til hjálpartækja - reglugerð