Áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvælaverði
Forsætisráðuneytið hefur í dag sent embætti talsmanns neytenda svar við beiðni hans um upplýsingar um áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til lækkunar á matvælaverði. Texti bréfsins fer hér á eftir:
Vísað er til bréfs yðar dags. 18. desember sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um áætluð áhrif þegar lögfestra og fyrirhugaðra aðgerða stjórnvalda til að lækka matvælaverð. Aðgerðirnar eru margþættar og fela meðal annars í sér lækkun virðisaukaskatts á matvæli úr 14% í 7% og niðurfellingu vörugjalda af matvælum. Þessar aðgerðir eru taldar geta leitt til rúmlega 10% lækkunar á matvælaverði. Þá er gert ráð fyrir allt að 40% lækkun tolla af innfluttum kjötvörum auk þess sem fyrir liggur ákvörðun Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um raunlækkun á heildsöluverði mjólkurafurða sem verði náð með óbreyttu verði út næsta ár. Að teknu tilliti til þessara þátta má ætla að áhrif aðgerðanna til lækkunar á matvælaverði geti legið á bilinu 12-13%. Til viðbótar mun virðisaukaskattur af veitingaþjónustu lækka úr 24,5% í 7%. Að öllu samanlögðu má ætla að þessar aðgerðir geti leitt til 14-16% lækkunar á matvælalið vísitölu neysluverðs að viðbættri veitingaþjónustu.
Heildaráhrif þessara lækkana eru metin til rúmlega 2% lækkunar vísitölu neysluverðs þegar þau eru að fullu komin fram. Auk þess mun lækkun virðisaukaskatts á annarri vöru og þjónustu úr 14% í 7% geta leitt til um 0,3% lækkunar vísitölu neysluverðs þannig að samanlögð lækkun vísitölunnar gæti numið rúmlega 2,5% þegar upp er staðið. Við mat á þessum áhrifum er einkum byggt á upplýsingum úr skýrslu formanns matvælaverðsnefndar og frá Hagstofu Íslands um vægi viðkomandi skatta og gjalda í vísitölu neysluverðs.
Mikilvægt er að hafa í huga að verðlagning á matvælum er að verulegu leyti frjáls og endanleg niðurstaða hvað varðar áhrif þessara aðgerða til lækkunar vöruverðs fer eftir aðstæðum á markaði hverju sinni. Verðlagseftirlit almennings er því mjög mikilvægt til að tryggja framgang þeirra kjarabóta fyrir heimilin sem felast í framangreindum aðgerðum. Miklu skiptir að ekki verði hækkanir á almennu matvöruverði á næstu mánuðum þangað til þessar aðgerðir koma til framkvæmda. Viðskiptaráðherra hefur af þessu tilefni mælst til þess við Neytendastofu og verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands að fylgjast mjög náið með verðlagi í smásöluverslunum á næstu mánuðum. Sömuleiðis hefur viðskiptaráðherra mælst til þess við Samkeppniseftirlitið að það fylgist vel með þróun samkeppnisaðstæðna á smásölumarkaði með matvöru. Gert er ráð fyrir reglubundnu samráði þessara aðila og stjórnvalda á næstu mánuðum.
Reykjavík 22. desember 2006