Umhverfisráðherra fylgist með dælingu úr Wilson Muuga
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fór á strandstað flutningaskipsins Wilson Muuga við Hvalsnes á Reykjanesi í dag og fylgdist með þegar starfsmenn Umhverfisstofnunar, björgunarsveitarmenn og starfsmenn Olíudreifingar unnu við að dæla olíu úr skipinu.
Hafist var handa við að dæla olíunnu upp úr klukkan 4 í morgun. Engir olíublautir fuglar hafa fundist í fjörum umhverfis strandstaðinn og ekkert ber á olíumengun frá skipinu. Eins og segir á heimasíðu Umhverfisstofnunar þá aukast sífellt líkurnar á því að hægt verði að afstýra alvarlegu umhverfisslysi á þessu viðkvæma svæði. Hægt er að nálgast fréttir af starfinu á strandstað á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda annast Umhverfisstofnun stjórn á vettvangi þegar mengun berst í hafið utan hafnarsvæða og ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist.