Athugun eftirlitsnefndar á ársreikningum sveitarfélaga 2005
Í samræmi við ákvæði VI. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og reglugerðar um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga nr. 374/2000, hefur eftirlitsnefndin yfirfarið ársreikninga sveitarfélaga fyrir árið 2005 með hliðsjón af fjárhagsáætlun ársins og fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.
Fyrir nefndinni lágu ársreikningar 101 sveitarfélags og greinargerðir frá sveitarfélögum þar sem rekstrarniðurstaða ársins 2005 var neikvæð. Á grundvelli viðmiða sem nefndin hefur sett sér meðal annars varðandi rekstrarniðurstöðu, peningalega stöðu, eiginfjárhlutfall og þróun í fjármálum hvers sveitarfélags, ákvað nefndin að óska eftir upplýsingum frá þremur sveitarfélögum um hvernig sveitarstjórn hyggst bregðast við viðvarandi halla á rekstri sveitarsjóðs og hver þróunin hefur verið í fjármálum sveitarfélagsins á árinu 2006 í samanburði við fjárhagsáætlun ársins. Um er að ræða sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarkaupstað og Sveitarfélagið Skagafjörð. Nefndin mun taka svör viðkomandi sveitarstjórna til umfjöllunar þegar henni hafa borist fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna fyrir árið 2007 en samkvæmt 61. gr. sveitarstjórnarlaga ber að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar næsta árs fyrir lok desembermánaðar.
Að beiðni félagsmálaráðuneytisins kannaði nefndin sérstaklega fjárhagsstöðu sveitarfélaga á Austurlandi. Í kjölfarið hefur nefndin lagt til við sveitarstjórnir Breiðdalshrepps og Djúpavogshrepps að þær undirriti samning um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit milli nefndarinnar og hlutaðeigandi sveitarstjórna. Auk þess mun nefndin hafa fjármál Seyðisfjarðarkaupstaðar áfram til skoðunar á árinu 2007 vegna viðvarandi halla á rekstri sveitarsjóðs.
Þá hafa fjármál Vestmannaeyjabæjar verið til skoðunar hjá nefndinni vegna viðvarandi halla á rekstri sveitarsjóðs en í ágúst síðastliðnum var undirritaður samningur um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit milli nefndarinnar og bæjarstjórnar sveitarfélagsins.