Hoppa yfir valmynd
30. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Aukinn sveigjanleiki til að bregðast við nýjum möguleikum

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði í nýársboði Flugmálastjórnar í gær að með breyttri skipan flugmála væri verið að auka sveigjanleika og hagkvæmni til að geta brugðist sem skjótast við nýjum hugmyndum og möguleikum í þjónustu við flugstarfsemi. Boðið var haldið í tilefni af þeim tímamótum sem framundan eru með breyttu skipulagi Flugmálastjórnar Íslands og stofnun Flugstoða ohf.

Samgönguráðherra þakkaði starfsmönnum Flugmálastjórnar fyrir ötult starf gegnum árin og sagði að sú mikla uppbygging sem orðið hefði í íslenskri ferðaþjónustu væri öðrum þræði byggð á öflugri starfsemi á vettvangi flugsins. ,,Það er ekki síst fyrir starf ykkar á vettvangi Flugmálastjórnar sem svo vel hefur tekist til með rekstur flugfélaganna sem byggja útrás sína á þekkingu og starfi frumkvöðlanna í íslenskum flugmálum,” sagði ráðherra meðal annars. Einnig fagnaði ráðherrann þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli sem verða um áramótin hluti af þeirri starfsemi og þeirri liðsheild sem falla á undir starfsemi á vegum samgönguráðuneytisins.

Sturla Böðvarsson rifjaði einnig upp stuttlega rúmlega 60 ára sögu Flugmálstjórnar. Þá sagði hann að flugrekstur væri í stöðugri þróun og yfirvöld þurfi að búa flugi það umhverfi sem hæfi og ýti undir þróunarmöguleika:

,,Með breytingunni sem nú verður á skipan flugmála, að Flugstoðir ohf. taki við rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu en stjórnsýsla og eftirlit verði áfram á könnu Flugmálastjórnar Íslands, er verið að mæta alþjóðlegum kröfum um aðskilnað á stjórnsýslu og þjónustu. Stofnun Flugstoða ohf. eykur sveigjanleika og hagkvæmni og gefur möguleika á þeirri þörf að bregðast skjótt við nýjum hugmyndum og möguleikum. Með þessari skipan er umfram allt stefnt að því að tryggja sem best framtíðarhagsmuni starfsmanna.

Breytingar á rekstrarformi frá ríkisstofnun til opinbers hlutafélags er ekki vegna kreddufestu samgönguráðherrans eða andstöðu við ríkisrekstur heldur spurning um að velja það form sem talið er henta best starfseminni.

Þær breytingar sem ég stend fyrir á sviði flugmála eru undirbúnar og framkvæmdar af mönnum sem best þekkja til og ég treysti til að vinna af heilindum að þessu mikilvæga verkefni. Og ég fullvissa ykkur jafnframt um að Flugstoðir ohf. er ekki til sölu.

Ég tel að með því skrefi sem við stígum nú tryggjum við sem best áframhaldandi störf og öfluga þjónustu á öllum sviðum flugsins. Flugið verður áfram lífæð okkar Íslendinga bæði um landið og í samskiptum okkar við umheiminn. Þannig hefur það verið í áratugi og þannig verður það áfram.”

Ræðuna í heild má sjá á vefnum sturla.is.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta