Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Greiðslur til Byrgisins stöðvaðar tímabundið

Félagsmálaráðuneytið hefur að tilmælum Ríkisendurskoðunar stöðvað tímabundið greiðslur til Byrgisins líknarfélags ses. Ráðuneytið sendi Byrginu ábyrgðarbréf þar um 29. desember sl.

Með bréfi, dagsettu 16. nóvember sl., óskaði ráðuneytið eftir að Ríkisendurskoðun beitti skoðunarheimild sinni skv. 7. gr. laga um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, að því er varðar fjármuni úr ríkissjóði sem veittir eru í rekstur Byrgisins.

Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli ráðuneytisins á því að úttekt hennar gefi nú þegar til kynna að fjárreiðum og reikningshaldi Byrgisins líknarfélags ses. sé verulega áfátt. Af þeim ástæðum mælist Ríkisendurskoðun til þess við ráðuneytið að engar peningagreiðslur eigi sér stað til Byrgisins fyrr en úttektinni er lokið. Stefnt er að því að ljúka henni um miðjan þennan mánuð.

Ákvörðun um framhald málsins verður tekin eftir að endanleg niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.

Félagsmálaráðuneytið byggir ákvarðanir sínar um Byrgið á samráði við viðeigandi fagaðila með hliðsjón af þeim upplýsingum sem aflað hefur verið um starfsemina og með velferð vistmanna að leiðarljósi.

Ráðuneytið hefur farið þess á leit við fagaðila á sviði heilbrigðis- og félagsmála að þeir leggi mat á aðstæður þeirra einstaklinga sem dvelja í Byrginu þannig að hagsmunir þeirra séu tryggðir á hverjum tíma og til frambúðar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta