Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vel að verki staðið við Hvalsnes

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra við strandstað Wilson Muuga
Við Hvalsnes

Strand flutningaskipsins Wilson Muuga við Hvalsnes á Reykjanesi hefur vakið menn til umhugsunar um hættuna á verulegri olíumengun sem orðið getur hér við land. Siglingar við landið eru ekki hættulausar og sagan geymir fjölmörg skipströnd og óhugnanlegt manntjón við strendur landsins. Það er því nauðsynlegt að læra af fenginni reynslu svo forða megi slysum í framtíðinni.

Tilgangurinn með því að dæla olíu Wilson Muuga í land var sá að afstýra umhverfis- og mengunarslysi, en á strandstað er fuglamergð mikil yfir vetrartímann og auk stórra flokka æðarfugla eru á þessum slóðum helstu vetrarstöðvar tegunda á válista s.s. toppskarfs. Betur fór en á horfðist við að ná olíunni úr skipinu og frá því fyrir jól hefur verið unnið sleitulaust að því að forða því að olían hafnaði í sjónum. Starfsmenn Umhverfisstofnunar og Olíudreifingar hafa unnið afar faglega að þessu verki í samstarfi við þyrlusveitir Landhelgisgæslunnar, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, Framtak og starfsmenn sýslumannsins í Keflavík. Þá veittu björgunarsveitarmenn ómetanlega aðstoð á strandstað og tóku að sér að vakta fjöruna og kanna hvort olíumengunar yrði vart. Olíudælingin gekk fumlaust og áhugavert var að fylgjast með því hve skipulega var gengið til verks. Eiga þeir fjölmörgu sem komu að þessari vel heppnuðu björgun þakkir skyldar.

Nú þegar bráðaaðgerðum til að forða mengunarslysi við Hvalsnes er lokið tekur við almenn og tímafrekari hreinsun þar sem flak skipsins verður fjarlægt af strandstað. Þetta strand leiðir vissulega hugann að siglingum stórra skipa hér við land. Sérstaklega þeirra sem flytja olíu eða aðra hættulega farma. Því hefur verið spáð að hér við land muni siglingar skipa sem flytja olíu og gas aukast til muna frá því sem nú er. Olíuslys hér við land af völdum slíkra skipa myndu valda verulegum umhverfis- og efnahagsskaða. Öryggi skipaferða í hafinu umhverfis landið skiptir okkur því miklu, ekki aðeins fyrir umhverfið heldur einnig ímynd okkar sem seljendur fisks og annarra matvæla.

Það hefur sýnt sig að við eigum þjálfað fólk til að takast á við mengunaróhöpp sem verða af skipssköðum eins og þeim við Hvalsnes, en besta leiðin til að vernda nátttúruna er að fyrirbyggja eins og kostur er að slíkir atburðir eigi sér stað hér uppi í landsteinunum. Bestu fyrirbyggjandi aðgerðirnar eru þær að setja reglur sem halda siglingarleiðum olíuskipa og annarra skipa með sambærilegan farm vel frá landinu. Að því eigum við að vinna á næstu vikum og mánuðum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta