Menntamálaráðherra og Akureyrarbær undirrita þriggja ára samning um menningarmál á Akureyri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu í dag þriggja ára samning um samstarf menntamálaráðuneytis og Akureyrarbæjar um menningarmál í Akureyrarbæ.
Samningurinn hljóðar upp á samtals 360 m.kr. framlag ríkisins og gildir til ársloka 2009. Fyrsti samningurinn um framlög ríkisins til menningarmála er tengjast Akureyrarbæ var undirritaður árið 1996 og hefur verið endurnýjaður reglulega síðan.
Markmið samningsins sem undirritaður var í dag, er að efla enn frekar hlutverk Akureyrar í lista- og menningarlífi á Íslandi. Með stuðningi við meginstofnanir á sviði myndlistar, tónlistar og leiklistar vilja samningsaðilar stuðla að því að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs, með möguleikum til aukinnar atvinnumennsku á listasviði. Á samningstímanum verður tekið í notkun nýtt menningarhús sem lýtur að sömu markmiðum.
Samningsaðilar eru sammála um að meginverkefni samningsins séu að efla starf Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, að styrkja starf Listasafnsins á Akureyri sem meginstoðar myndlistar utan höfuðborgarsvæðisins, að renna enn styrkari stoðum undir starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri, að Amtsbókasafnið geti gegnt hlutverki sínu sem eitt af skylduskilasöfnum í landinu, og að kynna fornleifaverkefnið að Gásum og miðla þeirri þekkingu sem til hefur orðið.
Bæjarstjórn Akureyrar skal gera skriflega samninga við ofangreinda aðila. Í samningum skulu koma fram markmið verkefna og hvaða mælikvarðar verða lagðir til grundvallar þegar árangur þeirra verður metinn.