Samgönguráðherra heimsækir Flugstoðir
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra heimsótti í dag Flugstoðir ohf. og ræddi við starfsmenn í flugstjórnarmiðstöðinni og flugturninum í Reykjavík. Var tilgangurinn meðal annars að þakka starfsmönnum fyrir vel unnin störf nú þegar félagið er að hefja göngu sína.
Flugstoðir eru til húsa í húsnæði Flugmálastjórnar Íslands í flugturninum við Reykjavíkurflugvöll og í byggingu flugstjórnarmiðstöðvarinnar sem er einnig við flugvöllinn. Starfsemi Flugmálastjórnar verður í Skógarhlíð. Verið er að ganga frá aðstöðu og skipulagi starfsmanna og heimsótti samgönguráðherra annars vegar starfsmenn á öllum hæðum frá flugturni á efstu hæð og niður á jarðhæð. Hins vegar heimsótti hann starfsemi flugstjórnarmiðstöðvarinnar en þar er stýrt umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið. Fram kom að flugumferð hefur gengið vel þessa daga sem viðbúnaðaráætlunin hefur gilt.