Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra fellst á kröfu um að heimila lagningu Vestfjarðarvegar um Teigsskóg

Umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðarvegar á milli Bjarkarlundar og Eyrar í Reykhólahreppi, nema hvað varðar leið B í 2. áfanga þar sem vegastæðið liggur um Teigsskóg í Þorskafirði.

Átta kærur bárust umhverfisráðuneytinu vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar, þar á meðal frá Vegagerðinni, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppi og Reykhólahreppi. Umhverfisráðherra óskaði í kjölfarið eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Breiðafjarðarnefndar, Fornleifaverndar ríkisins og Skógræktar ríkisins. Vegna álitamála um verndargildi og sérstöðu Teigsskógs þá leitaði ráðuneytið eftir sérfræðiáliti Ásu L. Aradóttur vistfræðings.

Umhverfisráðuneytið fellst á leið B í 2. áfanga Vestfjarðarvegar með sex skilyrðum. Meðal þessara skilyrða er að framkvæmdaraðili, þ.e. Vegagerðin, rækti birkiskóg á Vestfjörðum í samráði við Umhverfisstofnun og Skógrækt ríkisins við sambærilegar aðstæður og eru í Teigsskógi, a.m.k. til jafns að flatarmáli við þann birkiskóg sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaða framkvæmd. Þá skal Vegagerðin velja þann kost sem er bestur með hliðsjón af verndun Teigsskógar við útfærslu á vegstæðum, frágangi þeirra og ræsum; vegna arnarvarps skal Vegagerðin hanna veginn þannig að hann uppfylli skilyrði 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum dýrum og villtum fuglum og í Teigsskógi skal vegstæði skilgreint þröngt og efnisnám, skeringar og slóðagerð skulu takmörkuð við vegstæðið sjálft og ákveðin samráði við Umhverfisstofnun.

Ráðuneytið telur að óumdeilt sé að út frá umferðaröryggissjónarmiðum sé leið B í 2. áfanga betri kostur en aðrar leiðir sem Vegagerðin hefur lagt til. Í 1. lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er hugtakið umhverfi skilgreint sem: ,,Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti”. Umtalsverð umhverfisáhrif teljast samkvæmt sömu grein veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Að mati ráðuneytisins vega umferðaröryggissjónarmið þungt við mat á því hvort framkvæmd geti talist hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Þegar umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar við leið B eru virt að teknu tilliti til þeirra mótvægisaðgerða sem settar eru fram í úrskurðarorðum og vægi umferðaröryggissjónarmiða fellst ráðuneytið ekki á það að áhrif leiðar B séu umtalsverð í skilningi b-liðar 2. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Ráðuneytið fellst samkvæmt framansögðu á kröfu kærenda um að heimila leið B í 2. áfanga með skilyrðum.

Hér má nálgast úrskurðinn í heild sinni



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta