Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í desember 2006

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. janúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu sem byggðar eru á gögnum um innheimtu virðisaukaskatts var vöruskiptajöfnuður neikvæður um 9 milljarða í desember.

Flutt var út fyrir um 19 milljarða króna í mánuðinum en innflutningur nam rúmum 28 milljörðum króna. Innflutningur hefur því aukist um tæpt 1,0 prósent ef miðað er við tólf mánaða breytingu á staðvirtu meðaltali síðustu þriggja mánaða.

Ef rýnt er nánar í innflutningstölur sést að innflutningur er nokkuð minni en í nóvember en það má að stórum hluta rekja til minni olíuinnflutnings en sá liður er mjög sveiflukenndur milli mánaða. Innflutningur á fjárfestingarvörum dregst saman frá fyrri mánuði en á móti var meira flutt inn af hrá- og rekstrarvörum.

Neyslutengdur innflutningur lækkar talsvert frá nóvember líkt og gerst hefur í desembermánuði síðustu ár og á það bæði við um varanlegan (heimilistæki ofl.) og hálf-varanlegan (t.d. föt og skór) neysluvarning. Bílainnflutningur minnkar nokkuð frá fyrri mánuði og er nú svipaður að umfangi og á haustmánuðum.

Ef bráðabirgðatölur eru lagðar við innflutningstölur á árinu reyndist vöruinnflutningur nema tæpum 364 milljörðum króna árið 2006. Niðurstaðan er örlítið hærri en í þjóðhagsspá sem kom út í haust en þar var gert ráð fyrir að flutt yrði inn fyrir tæpa 361 milljarða króna á árinu. Misræmið má að mestu skýra með því að innflutningur á fjárfestingarvörum ásamt hrá- og rekstrarvörum hefur verið nokkuð meiri í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á síðari hluta ársins.

Staðvirtur vöruinnflutningur janúar 2003 - desember 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta