Ný reglugerðardrög um flugvelli
Unnin hafa verið drög að nýrri reglugerð um flugvelli en meðal breytinga eru ný orðtök og orðskýringar og margs konar ákvæði eru sett inn er varða girðingar umhverfis flugvelli, vottun og umferð og öryggi á flugvöllum. Hagsmunaaðilar og aðrir sem hafa áhuga á að kynna sér reglugerðina geta sent athugasemdir til samgönguráðuneytisins til 28. janúar á netfangið [email protected].
Gildandi reglugerð nr. 347/2004 er að verulegu leyti byggð á 1. bindi viðauka 14 við Chicago-samninginn. Töluverðar breytingar hafa orðið á viðaukanum og hefur reglugerðin verið endurskoðuð og samræmd þeim breytingum en nú er miðað við 3. útg. 9. breytingu viðaukans.
Sem dæmi um breytingar má nefna ný hugtök og orðskýringar, frekari innleiðingu ákvæða viðaukans er varða flugbrautarsnúningsplön, viðhald á slitlagi, girðingar umhverfis flugvelli, vottun flugvalla, hljóðstjórnun og hindranafleti. Einnig er bætt við nýjum hluta VII sem hefur að geyma ákvæði um umferð og öryggi á flugvöllum. Þá eru gerðar leiðréttingar og breytingar er varða umsóknir um starfsleyfi, stjórnskipun og öryggisstjórnunarkerfi auk töluverðra breytinga og viðbóta á kröfum til flugvalla í flokki II, skráðra lendingarstaða og þyrluvalla auk þess sem skerpt er á nokkrum atriðum, svo sem varðandi upplýsingagjöf, umferð og þjónustu.
Uppsetning reglugerðarinnar breytist eitthvað við þetta sem og númeraröð einstakra kafla. Þar sem breytingar þessar eru nokkuð umfangsmiklar er lagt til að fella þær beint inn í texta gildandi reglugerðar og gefa út nýja reglugerð um flugvelli.
Hér má sjá drögin að nýju reglugerðinni.