Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2007 Dómsmálaráðuneytið

Fréttatilkynning um lögreglustörf í Vestmannaeyjum

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um lögreglustörf í Vestmannaeyjum vill dóms- og kirkjumálaráðuneytið vill taka fram að áhyggjur bæjaryfirvalda um störf lögreglunnar þar eru með öllu ástæðulausar.

Hinn 29. desember sl. gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út reglugerð um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála. Breytingarnar eru liður í viðamiklum breytingum á skipulagi lögreglunnar. Breytingarnar eru allar hugsaðar til þess að efla lögregluna í landinu með stækkun umdæma, sem leiðir til þess að mannafli lögreglunnar nýtist betur og ótal möguleikar opnast á sérhæfingu lögreglumanna, með tilheyrandi eflingu rannsókna og löggæslu. Liður í þessum breytingum er, að framvegis munu færri og öflugri rannsóknardeildir sinna rannsókn hinna alvarlegra og flókinna afbrota eingöngu.

Við ákvarðanir vegna breytinga á lögreglulögunum og um stofnun rannsóknardeilda á sjö stöðum á landinu, var sérstaða Vestmannaeyja áréttuð og komið til móts við hana með vísan til tillögu í lokaskýrslu framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála þar sem sagði:

Staða rannsóknarlögreglumanns í Vestmannaeyjum

Töluverð gagnrýni kom fram á fundi nefndarinnar á Selfossi á þá tillögu nefndarinnar að færa fjárveitingu vegna rannsóknarlögreglumanns í Vestmannaeyjum til lykilembættis á Selfossi. Að mati nefndarinnar var það nauðsynlegt til að styrkja betur uppbyggingu einnar rannsóknardeildar fyrir allt Suðurland. Með hliðsjón af þeirri skýru andstöðu sem fram kom á fundinum telur nefndin rétt að hugað verði að uppbyggingu rannsóknardeildar á Selfossi með öðrum hætti og ekki hróflað við fjárveitingu til embættisins í Vestmannaeyjum.

Dóms- og kirkjumálaráðherra sagði við upphaf umræðna um þetta mál á alþingi, að engin breyting yrði á stöðu rannsóknarlögreglumanns í Vestmannaeyjum með frumvarpinu um nýskipan lögreglumála og gekk það eftir við afgreiðslu málsins á þingi.

Í dag var sagt frá því í fréttum að bæjarráð Vestmannaeyja hefði sent frá sér ályktun vegna þessa og telji ráðið að reglugerðin skerði þjónustu lögreglunnar við Vestmannaeyinga. Bæjarstjóri Vestmannaeyja hefur svo haldið því fram opinberlega að rannsóknir opinberra mála í Eyjunum skaðist við breytingarnar, meðal annars vegna landfræðilegrar legu eyjanna, þar sem bíða verði rannsóknarmanns ofan af fastalandinu.

Þessar áhyggjur bæjaryfirvalda í Eyjum eru með öllu ástæðulausar. Eins og legið hefur fyrir lengi, og dómsmálaráðherra tók sérstaklega fram á alþingi þegar frumvarp til lögreglulaga var lagt fram, þá verður engin breyting á stöðu rannsóknarlögreglumanns í Eyjum. Þar er nú, rétt eins og var fyrir breytingu, staðsettur rannsóknarlögreglumaður sem getur tekið til við rannsóknir afbrota um leið og vitneskja berst um þau. Nú hefur hins vegar orðið sú breyting, að auk þeirrar þjónustu sem lögreglan í Vestmannaeyjum veitir munu íbúar Vestmannaeyja einnig njóta þess styrks sem felst í rannsóknardeild, sem er á Selfossi og sinnir rannsóknum mála sem krefjast sérhæfingar og aukinnar þekkingar.

Þær breytingar sem urðu á skipan löggæslumála nú um áramótin, munu efla lögregluna í Vestmannaeyjum og þjónustu hennar við Eyjamenn.

Reykjavík 10. janúar 2007



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta