Heimsókn danska varnarmálaráðherrans.
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Sören Gade varnarmálaráðherra Dana rituðu í dag undir samkomulag um nánara samstarf Landhelgisgæslu Íslands og danska flotans við eftirlit, leit og björgun á N-Atlantshafi. Ráðherrarnir rituðu undir samkomulagið um borð í danska herskipinu Triton í Reykjavíkurhöfn. Síðan var efnt til björgunaræfingar með þyrlu varðskipsins og TF-Líf með þátttöku björgunarbáts Slysvarnafélagsins Landsbjargar og sjúkrabíls.
Sören Gade kynnti sér starfsemi í björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð í morgun. Þá heimsótti hann höfuðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og sæmdi áhöfn TF-Líf heiðursmerki fyrir afrek hennar hinn 19. desember sl. þegar hún bjargaði sjö skipverjum af Triton skammt frá Sandgerði, þegar bátur þeirra sökk við björgunarstörf.
Sören Gade kom til landsins 10. janúar og hélt utan í dag, 11. janúar. Ráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í Kaupmannahöfn í júní 2005 að vinna að gerð slíks samkomulags í því skyni að skapa trausta stjórnmálalega umgjörð um hið mikilvæga samstarf danska flotans og landhelgisgæslunnar, sem hefur þróast undanfarin ár.
Reykjavík 11. janúar 2007