Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fleiri íslensk fyrirtæki gera upp í dölum en evrum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. janúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt lögum sem sett voru á árinu 2002 geta fyrirtæki sem uppfylla tiltekin skilyrði fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli.

Þau fyrirtæki sem hér helst um ræðir eru félög sem eru með meginstarfsemi sína erlendis eða eru hluti erlendrar samstæðu þar sem starfrækslugjaldmiðill er annar en íslenska krónan, félög sem eiga erlend dótturfélög eða hlutdeild í erlendum félögum þar sem svo háttar til að meginviðskiptin eru við þessi félög og félög sem eru með meginstarfsemi sína hér á landi en eru með verulegan hluta tekna sinna frá erlendum aðilum í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Miðað er við að heimild sé veitt til reikningsskila í þeim erlenda gjaldmiðli sem mestu skiptir í viðskiptum fyrirtækisins.

Helstu rök sem lágu að baki ákvörðunum um að fyrirtæki gætu fengið heimild til reikningsskila í erlendum gjaldmiðli voru þessi:

  • Fjárhagslegur samanburður við erlenda samkeppnisaðila verður auðveldari
  • Sveiflur í afkomu félagsins vegna gengisbreytinga verða minni
  • Aðgengi erlendra fjárfesta og lánastofnana að viðurkenndum upplýsingum
    batnar til muna
  • Auðveldara verður fyrir erlendar fyrirtækjasamstæður að stofna og reka dótturfélög á Íslandi
  • Auðveldara verður fyrir íslensk móðurfélög að stofna og reka dótturfélög
    erlendis.

Í lok síðasta árs hafði 167 fyrirtækjum verið veitt heimild til reikningsskila í erlendum gjaldmiðli. Í umræðum um þessi mál að undanförnu hefur virst gæta þess misskilnings að einvörðungu sé leitað eftir heimild til að gera upp í evrum. Því fer víðs fjarri. Meirihluti þeirra fyrirtækja sem fengið hafa heimild til reikningsskila í erlendum gjaldmiðli, eða 98 af 167, hefur fengið heimild til að gera upp í bandaríkjadölum. Skiptingin að öðru leyti er sú að 51 fyrirtæki hefur fengið heimild til reikningsskila í evrum, 9 í breskum pundum, 3 í dönskum krónum, 2 í norskum krónum, 2 í japönskum jenum, 1 í sænskum krónum og 1 í kanadadölum.

Skattstofnar fyrirtækja sem gera upp í erlendum gjaldmiðli eru eftir sem áður ákvarðaðir í íslenskum krónum með umreikningi tekna og gjalda, eigna, skulda og eigin fjár í íslenskar krónur.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta