Styrkir til námskeiða í íslensku
Menntamálaráðuneyti hefur auglýst fyrstu úthlutun styrkja til fræðsluaðila og fyrirtækja er bjóða nám í íslensku sem ekki er hluti af almennu námi á grunn- eða framhaldsskólastigi árið 2007.
Styrkveitingar þessar byggja á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. nóvember sl. þar sem ákveðið var að fela menntamálráðuneyti framkvæmd verkefnis um íslenskukennslu fyrir útlendinga og verja til þess 100 m.kr. árið 2007. Af þeirri upphæð verður a.m.k. 70 m.kr. varið til styrkja vegna námskeiðahalds.
Markmiðið með styrkjunum er að gefa öllum sem búsettir eru á Íslandi færi á að öðlast þá færni í íslensku að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar. Fræðsluaðilar og fyrirtæki sem bjóða starfsmönnum sínum upp á skipulagða kennslu í íslensku, og eru á fyrirtækjaskrá, geta sótt um styrki. Fyrirtæki, sem ekki eru fræðsluaðilar, þurfa að hafa samning við hæfan fræðsluaðila er annast kennsluna.
Verkefnisstjórn vegna íslenskukennslu fyrir útlendinga var skipuð 24. nóvember sl. Við undirbúning fyrstu úthlutunar styrkja til námskeiða í íslensku hefur stjórnin haft samráð við fjölmarga hagsmunaaðila. Jafnframt vinnur verkefnisstjórnin að undirbúningi annarra þátta þessa viðfangsefnis sem eru námskrár- og námsefnisgerð, menntun kennara, gæðaeftirlit og námsmat.
Styrkjum er úthlutað tvisvar til þrisvar á ári eftir atvikum.
Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi.
Umsóknareyðublöð og nauðsynlegar upplýsingar eru aðgengilegar undir flokknum sjóðir og eyðublöð
á vef menntamálaráðuneytis: menntamalaraduneyti.is. Umsóknir skal senda á [email protected]
Umsóknarfrestur er til 2. febrúar 2007.