Breytingar á byggingarreglugerð
Umhverfisráðherra hefur samþykkt breytingar á byggingarreglugerð. Gerðar hafa verið breytingar á brunavarnarkröfum í svalagangshúsum og háhýsum, m.a. hefur verið leyft að þrengja stiga í háhýsum gegn því að lyftur í húsinu verði gerðar þannig að slökkvilið geti notað þær í björgunarstörf. Þá hefur Brunamálastofnun verið gert að gefa út leiðbeiningar um frágang á gustlokum á svölum. Einnig hafa verið gerðar breytingar á brunavarnarkröfum þegar atvinnuhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði. Þegar ekki er hægt að koma fyrir venjulegum svölum í slíkum framkvæmdum er nú heimilt að koma fyrir ,,frönskum” svölum ef aðrar brunavarnir í húsinu eru auknar.
Einnig hafa verið gerðar ýmsar smærri lagfæringar og orðalagsbreytingar á byggingarreglugerðinni. Héðan í frá verður hægt að nálgast reglugerðina með áorðnum breytingum á heimasíðu umhverfisráðuneytisins. Ekki er um lögformlega birtingu að ræða. Komi fram misræmi milli reglugerðartexta hér á vefnum og prentaðri útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda gildir hin prentaða útgáfa.
Hér er hægt að nálgast þær breytinar sem nú voru gerðar á reglugerðinni.
Hér má nálgast byggingarreglugerðina með áorðnum breytingum.