Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úttekt á vinnubrögðum í byggingariðnaði til athugunar

Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um óvönduð vinnubrögð við húsbyggingar hér á landi hefur nú verið tekið til athugunar í umhverfisráðuneytinu hvort og hvernig best megi gera úttekt á vinnubrögðum í byggingariðnaði. Slík úttekt gæti orðið upphaf að átaki í rannsóknum og þekkingarsöfnun um málefni húsbyggjenda. Þá er einnig stefnt að því að Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra leggi fram frumvarp að nýjum mannvirkjalögum á Alþingi á næstu dögum sem eiga að efla opinbert byggingareftirlit. Þetta kom fram í ávarpi Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins, á málþingi nokkurra félaga og stofnana um hönnun íbúða og skipulag byggðar með tilliti til lífsgæða, sem haldið var í Reykjavík í dag. Í þessum efnum vísaði Magnús m.a. til þess að forsvarsmaður Húseigendafélags Reykjavíkur hefur sagt að kvörtunum húsbyggjenda til félagsins um galla í byggingum hafi fjölgað verulega.

Ábyrgð neytenda
Magnús benti auk þess á að neytendur mættu ekki gleyma eigin ábyrgð í fasteignaviðskiptum. Margir virtust þeirrar skoðunar að opinberir aðilar annist allt hönnunar- og framkvæmdaeftirlit með húsbyggingum á þeirra vegum. Þessi misskilningur hefði það m.a. oft í för með sér að ekki færi fram eðlileg eftirlit með þeirri vinnu sem fram færi fyrir viðkomandi kaupanda. Það geti síðan leitt til þess að gæði framkvæmdanna verða ekki alltaf í samræmi við væntingar. Magnús sagði að þess vegna væri mikilvægt að tryggja fagleg vinnubrögð hjá öllum þeim sem að byggingarframkvæmdum koma, jafnt framleiðendum og seljendum byggingarefnis, hönnuðum bygginga og iðnaðarmönnum sem og stuðla að aukinni gæðavitund neytenda. Hér má nálgast ávarpið í heild sinni.

Nýtt frumvarp á næstu dögum
Frumvarp að nýjum mannvirkjalögum sem ætlað er að samræma og samhæfa betur opinbert eftirlit með byggingu mannvirkja hefur verið í vinnslu á vegum umhverfisráðuneytisins undanfarin misseri. Núverandi opinbert byggingareftirlit er á höndum margra og ekki undir markvissri yfirumstjórn eins aðila. Drög að lagafrumvarpi um mannvirki voru kynnt hagsmunaaðilum á liðnu sumri og almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir við það. Fjölmargar ábendingar bárust og breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu í kjölfarið. Stefnt er að því að Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra leggi frumvarp að nýjum mannvirkjalögum fyrir Alþingi á næstu dögum auk frumvarps að nýjum skipulagslögum. Með þeim er m.a. stuðlað að auknum gæðum og öryggi mannvirkja, vernd umhverfis, tæknilegum framförum, aðgengi fyrir alla og góðri orkunýtingu við rekstur bygginga.

Ein stofnun hafi yfirumsjón mannvirkjamála
Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli. Lagt er til að sett verði á fót sérstök stofnun, Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála. Meðal málaflokka sem lagt er til að verði sameinaðir undir Byggingarstofnun eru byggingarmál, brunamál og eftirlit með byggingarvörum á markaði. Áfram er gert ráð fyrir að beint eftirlit með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingareftirlit um allt land, m.a. með gerð leiðbeininga og skoðunarhandbóka. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að byggingarnefndir sveitarfélaganna verði lagðar niður og að byggingarleyfi verði gefin út af byggingarfulltrúa í stað sveitarstjórnar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta