Styrkir til þróunarverkefna í framhaldsskólum og til fullorðinsfræðslu
Menntamálaráðuneyti veitir árlega styrki til þróunarverkefna í framhaldsskólum og til fullorðinsfræðslu. Með þróunarverkefnum er átt við tilraunir og nýbreytni í skólastarfi. Skólameistarar framhaldsskóla fyrir hönd skóla, kennarahópa eða einstakra kennara, samtök skóla og fagfólks í framhaldsskólum, svo og aðilar sem reka nám fyrir fullorðna sem að mati ráðuneytisins telst hliðstætt námi á framhaldsskólastigi, geta sótt um styrki. Með vísun til 2. gr. reglna nr. 274/1997 um styrkveitingarnar er auglýst eftir umsóknum um styrki til verkefna á skólaárinu 2007-2008 sem hér segir:
- Verkefni sem miða að því að styrkja tengsl framhaldsskóla og grunnskóla.
- Samstarfsverkefni framhaldsskóla um þróun kennsluhátta og námsúrræða fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.
- Verkefni sem miða að því að styrkja stöðu starfsnáms.
- Heimilt er að sækja um styrki til hvers konar þróunarverkefna m.a. á sviði fullorðinsfræðslu en ofangreind svið njóta forgangs.
Umsóknir skulu berast menntamálaráðuneyti í síðasta lagi 28. febrúar næstkomandi á þar til gerðu eyðublaði sem hægt er að fá í móttöku ráðuneytisins. Eyðublaðið er einnig að finna á vef ráðuneytisins: Sjóðir og eyðublöð.