Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þróunarsjóður leikskóla 2007

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum í Þróunarsjóð leikskóla fyrir árið 2007.

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum í Þróunarsjóð leikskóla fyrir árið 2007. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að þróunarverkefnum í leikskólum með hliðsjón af aðalnámskrá leikskóla. Með þróunarverkefnum er átt við nýjungar, tilraunir og nýbreytni í leikskólastarfi. Um styrk geta sótt leikskólastjórar, leikskólakennarahópar eða einstakir leikskólakennarar. Aðrir geta sótt um styrk með samþykki leikskólastjóra og rekstraraðila. Sækja má um styrk til nýrra verkefna og verkefna sem þegar eru hafin.

Við úthlutun njóta verkefni á neðangreindum sviðum forgangs að öðru jöfnu:

A. Náttúruvísindi í leikskólum með sérstaka áherslu á tengsl við skapandi starf
Auglýst er eftir umsóknum um þróunarverkefni er lúta að náttúruvísindum. Óskað er eftir verkefnum sem sérstaklega miða að því að þróa tengsl skapandi starfs og náttúruvísinda. Samkvæmt aðalnámskrá leikskóla ber að samþætta nám og starf í leikskóla. Sköpun er eitt þeirra hugtaka sem telja má til undirstöðuhugtaka í leikskólastarfi, ennfremur er þar sérstök áhersla lögð á náttúruvísindi.

B. Hvernig læra leikskólabörn?
Auglýst er eftir umsóknum um þróunarverkefni sem fela í sér skráningu á námsferli leikskólabarna. Óskað er eftir verkefnum sem hafa það að markmiði að leita eftir fjölbreyttum aðferðum til að skoða hvernig barn lærir og byggir upp þekkingu í gegnum leik og samskipti við börn og fullorðna. Einnig hvernig leikskólakennari getur ýtt undir og stutt við námsferli barna með því að skrá hugmyndir þeirra og tilgátur. Tilgangur með slíkum aðferðum væri að gera nám barna sýnilegt og stuðla að því að börn verði virkir þátttakendur í skipulagi og mati á eigin námi.

C.  Önnur verkefni
Heimilt er að sækja um styrki til hvers kyns þróunarverkefna þótt ofangreind svið njóti forgangs.

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, sem nú hefur fengið heitið Símenntun, rannsóknir og ráðgjöf, SRR, annast umsýslu með sjóðnum og veitir nánari upplýsingar rannsokn.khi.is/upplysingavefur/, netfang [email protected]. Reglur um sjóðinn og ýmsar aðrar upplýsingar er einnig að finna á vef menntamálaráðuneytis. menntamalaraduneyti.is

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi.

Rafræn umsóknareyðublöð og upplýsingar um fylgigögn eru aðgengileg á vef SRR  rannsokn.khi.is/upplysingavefur/

Umsóknir skulu hafa borist til SRR, rannsokn.khi.is/upplysingavefur/ fyrir kl.16:00 föstudaginn 2. mars 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta