Afhending trúnaðarbréfs
Dr. Gunnar Pálsson afhenti 18. janúar 2007, forseta Indlands, Dr. A.P.J. Abdul Kalam, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Indlandi með aðsetur í Nýju Delí. Athöfnin fór fram í Rashtrapati Bhavan, forsetahöllinni í Delí.
Að athöfninni lokinni ræddi forsetinn um mikilvægi þess að hagsmunir Indlands og Íslands fylgdust að og skiluðu mestum árangri. Honum var mikið í mun að koma á auknum tengslum Indlands og annarra ríkja á sviði menntunar, vísinda og tækni og gerði mikilvægi mannauðs í ungu fólki undir sautján ára aldri að sérstöku umtalsefni. Nefndi hann að Ísland og Indland ættu samleið á mörgum sviðum og tiltók sérstaklega vetnissamstarf.
Sendiráð Íslands á Indlandi var stofnað í febrúar 2006.
Frá vinstri: Helga Þórarinsdóttir, sendiráðsfulltrúi, Auðunn Atlason, sendiráðunautur, Dr. Gunnar Pálsson, sendiherra, Dr.A.P.J.Kalam, forseti Indlands, Rajiv Sikri, aðstoðarutanríkisráðherra, V.Ashok, skrifstofustjóri Evrópuskrifstofu, og Sunil Lal, prótókollstjóri.