712 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra til uppbyggingar öldrunarþjónustu
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2007 til uppbyggingar verkefna í öldrunarþjónustu.Til ráðstöfunar í sjóðnum voru samtals 711,8 milljónir króna. Ákvörðun ráðherra er í samræmi við tillögur Samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem fer með stjórn framkvæmdasjóðsins og gerir tillögur um úthlutanir úr honum til ráðherra.
Samkvæmt lögum um málefni aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Fjármagni skal varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista og byggingar stofnana fyrir aldraða. Einnig er hlutverk sjóðsins að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða og til viðhalds húsnæðis dagvistar- dvalar- og hjúkrunarheimila. Loks er heimilt að veita styrki úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á skattskylda einstaklinga samkvæmt lögum um tekjuskatt.
Til margra ára hefur hluta af fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra verið varið til reksturs öldrunarstofnana í samræmi við ákvæði þar um í lögum. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að hætta að veita fé til reksturs úr sjóðnum í samræmi við niðurstöðu nefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara sem skilaði tillögum sínum s.l. sumar. Árið 2007 kemur þessi breyting til framkvæmda að hálfu leyti en frá árinu 2008 mun allt fé úr sjóðnum renna óskipt til uppbyggingar öldrunarþjónustu.
Úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra að þessu sinni eru til nokkuð margra verkefna og í mörgum tilvikum er um að ræða lokagreiðslur vegna framkvæmda sem er lokið eða eru á lokastigi. Markmiðið er að ljúka að fullu sem flestum verkefnum sem framkvæmdasjóðurinn hefur ákveðið að fjármagna. Þannig getur sjóðurinn framvegis einbeitt sér að fjármögnun færri og stærri verkefna, sinnt betur uppbyggingu hjúkrunarrýma þar sem þörfin er mest og þannig stytt biðtíma aldraðra eftir þessu úrræði.
Framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra samkvæmt úthlutunum ársins 2007
- 441 milljón króna vegna fjölgunar hjúkrunarrýma: Alls voru veitt framlög til 12 aðila vegna fjölgunar hjúkrunarrýma, samtals 441 milljón króna.
- 77 milljónir króna vegna breytinga á vistrýmum og annarra endurbóta: Alls voru veitt framlög til 14 aðila vegna breytinga á vistrýmum, s.s. fjölgunar einbýla og annarra endurbóta , samtals 77,3 milljónir króna.
- 137 milljónir króna til breytinga eða byggingar þjónustumiðstöðva og dagvistana fyrir aldraða: Alls voru veitt framlög til 13 aðila vegna byggingar þjónustumiðstöðva og dagvistana eða breytinga á slíku húsnæði, samtals 136,9 milljónir króna.
Auglýst er árlega eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Umsóknir fyrir árið 2008 þurfa að berast sjóðnum fyrir 1. mars n.k.
Fylgiskjöl:
Framlög til uppbyggingar og endurbóta (pdf opnast í nýjum glugga)
Framlög og styrkir til þróunarverkefna (pdf opnast í nýjum glugga)
Nánari upplýsingar veitir Einar Jón Ólafsson, deildarstjóri á fjármálaskrifstofu. Sími 545 8700
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
23. janúar 2007