Eftirfylgni könnunar á starfsemi leikskóla sem gerð var á síðasta ári
Til sveitarfélaga
Á síðasta ári gerði menntamálaráðuneyti könnun á afstöðu leikskólastjóra til aðalnámskrár leikskóla, skólanámskrár, mats á leikskólastigi, starfsmannahalds í leikskólum og samspils þessara þátta. Rafrænn spurningalisti var sendur til allra leikskóla í maí 2006 og var svarhlutfall 76%. Samantekt með helstu niðurstöðum hefur verið send til allra leikskóla.
Í niðurstöðunum kom meðal annars fram að 21% leikskóla hefur ekki opinbera uppeldisstefnu, 21% hefur ekki mótað eigin skólanámskrá og um 7% leikskóla hafa hvorki opinbera uppeldisstefnu né eigin skólanámskrá. Í aðalnámskrá leikskóla frá 1999 kemur fram, að sérhver leikskóli eigi að gera skólanámskrá á grundvelli aðalnámskrár leikskóla og skal skólanámskráin vera í samræmi við opinbera uppeldisstefnu leikskólans.
Í ljósi þess að könnunin gefur vísbendingar um að ofangreindum ákvæðum aðalnámskrár sé víða ábótavant hefur menntamálaráðuneyti ákveðið að kalla eftir frekari upplýsingum. Meðfylgjandi er yfirlit yfir leikskóla sveitarfélagsins þar sem sjá má hvaða leikskólar hafa sent ráðuneytinu upplýsingar um bæði skólanámskrá og uppeldisstefnu og þá leikskóla sem ráðuneytið hefur ekki fengið upplýsingar um. Menntamálaráðuneyti óskar eftir skriflegum skýringum frá sveitarstjórnum þar sem fram koma upplýsingar um það hvort skólanámskrá og/eða opinber uppeldisstefna eru fyrirliggjandi. Þar sem skólanámskrá og opinber uppeldisstefna eru ekki fyrirliggjandi er óskað eftir skýringum á því hvers vegna og fyrir hvaða tímamark vænta má að úr því verði bætt. Upplýsingar þessar óskast sendar ráðuneytinu fyrir 1. mars 2007.
Nánari upplýsingar veita Sigr. Lára Ásbergsdóttir, sérfræðingur á skóladeild ráðuneytisins (netfang: [email protected]) og Védís Grönvold, sérfræðingur á mats- og greiningarsviði ráðuneytisins (netfang: [email protected]).