Nr. 2/2007 - Nýr samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar
Nýr samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar
Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtök Íslands undirrituðu í dag nýjan samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Samingurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis. Samningurinn gildir til 6 ára, frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013.
Markmið samningsins eru:
- Að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda.
- Að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli.
- Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.
- Að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar.
- Að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.
Helstu efnisatriði samningsins eru:
- Framlög ríkisins hækka um 300 millj. kr. og nema þannig 3.348 millj. kr á fyrsta ári samningsins. Framlögin lækka síðan í áföngum á samningstímanum um nær 1% á ári að raunvirði.
- Samningurinn er nokkuð einfaldaður frá núgildandi samningi. Greiðsluleiðum til bænda er fækkað, jöfnunargreiðslum er breytt í beingreiðslur auk þess að undanþága frá útflutningsskyldu er felld niður í áföngum. Útflutningsskylda fellur svo niður frá og með framleiðsluárinu 2009.
- Nýmæli í samningnum er sérstakt ákvæði um veitingu fjármuna til að efla nýliðun í stétt sauðfjárbænda.
- Framlög til gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu eru aukin og verða hærra hlutfall af greiðslum til bænda af samningsfé en samkvæmt núgildandi samningi.
- Bændur sem eru orðnir 64 ára eiga kost á að gera samning um búskaparlok án þess að tapa rétti til beingreiðslna.
- Greiðslur vegna ullarframleiðslu eru óbreyttar.
- Ákvæði um aðilaskipti að greiðslumarki eru óbreytt.
Landbúnaðarráðuneytið,
25. janúar 2007
Samningurinn á Word-formi (56 KB): Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar