Samstarfsnefnd Íslands og Rússlands funda um sjávarútvegsmál
Samstarfsnefnd Íslands og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegsmála hélt áttunda fund sinn í Reykjavík dagana 24.-25. janúar 2007. Á fundinum voru rædd þau mál sem helst eru á döfinni varðandi samstarf landanna.
Á fundinum skiptust fulltrúar landanna á upplýsingum um framkvæmd samnings frá 15. maí 1999 milli ríkisstjórnar Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegsins.
Á fundi ríkjanna var fjallað um fjölþætt samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs. Fjallað var um samstarf landanna á sviði veiðieftirlits, hafrannsókna, um stjórn sameinlegra stofna á Norður-Atlantshafi m.a. karfa, kolmunna og norsk-íslenska síld. Samkomulag var um að leggja á komandi mánuðum sérstaka áherslu á tilraunir til að ná samkomulagi um bætta stjórnun karfaveiða á Reykjaneshrygg. Í því sambandi er stefnt að enn auknu samstarfi vísindamanna ríkjanna varðandi stöðu karfastofna. Lýstu fulltrúar landanna ánægju sinni yfir því að náðst hefur samkomulag um stjórn veiða á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2007 sem og fyrir kolmunna og lögðu áherslu á mikilvægi ábyrgrar stjórnunar veiða úr sameiginlegum stofnum.
Jafnframt var fjallað um viðskipti með sölukvóta sem íslenskar útgerðir hafa rétt á að kaupa samkvæmt samningnum og mikilvægi þess að skýrt liggi fyrir með hvaða hætti framkvæmd þessara viðskipta á að vera.
Enn fremur ræddu ríkin um frekara samstarf á sviði sjávarútvegsmála á fjölþjóðlegum vettvangi þar sem áherslur og hagsmunir ríkjanna tveggja fara oft saman.
Að loknum fundinum lýstu báðir aðilar yfir ánægju með viðræðurnar og mikilvægi þeirra í tvíhliða samskiptum ríkjanna.
Stefán Ásmundsson formaður sendinefndar Íslands og Petr A. Efanov formaður rússnesku sendinefndarinnar skrifuðu undir niðurstöðu fundar samstarfsnefnda landanna um sjávarútvegsmál.
Sjávarútvegsráðuneytið 26. janúar 2007