Skuldir ríkissjóðs
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. janúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Hreinar skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa farið lækkandi á undanförnum árum.
Í árslok 2001 námu þær um 21% af VLF og í árslok 2006 er áætlað að þær nemi rúmum 6% af VLF. Þannig námu þær tæpum 169 milljörðum króna í árslok 2001 og eru áætlaðar rúmir 74 milljarðar um síðustu áramót. Hrein staða ríkissjóðs, þ.e. hreinar skuldir að viðbættu handbæru fé, hefur einnig batnað, frá því að vera neikvæð um tæp 19% í árslok 2001 í það að vera áætluð rúmlega 1% í árslok 2006.
Á árinu 2006 var á gjalddaga eitt stórt erlent lán að fjárhæð 250 milljónir evra, að jafnvirði 22,5 milljarðar króna, sem tekið var í apríl 2001. Um var að ræða vaxtagreiðslubréf sem greitt var að fullu. Undir lok október sl. var Seðlabanka Íslands heimilað að ganga til samninga um erlenda lántöku ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforða Íslands með því að annast opinbera skuldabréfaútgáfu fyrir hönd ríkissjóðs á EMTN markaði að fjárhæð allt að einum milljarði EUR. Vaxta- og gjaldmiðlaáhættu af útgáfunni var eytt með því að kaupa auðseljanleg skuldabréf í samsvarandi tímalengdum. Úboðið tókst ágætlega og voru kjör útgáfunnar einum grunnpunkti undir millibankavöxtum (EURIBOR). Skuldabréfin bera fasta 3,75% vexti sem greiddir eru árlega fram að gjalddaga 1. desember 2011.
Góð staða ríkissjóðs gaf ekki tilefni til aukinnar skuldabréfaútgáfu á innlendum lánamarkaði á árinu 2006 en hins vegar var talið mikilvægt að viðhalda útgáfu ríkisverðbréfa á markaði. Þessar útgáfur mynda grunnvexti á markaði sem aðrir útgefendur miða kjör sín við. Samfelldur vaxtaferill áhættulausra vaxta sem byggist á útgáfum ríkissjóðs myndar þannig nauðsynlega undirstöðu fyrir verðmat á öðrum verðbréfum og afleiðum. Sökum lítillar útgáfuþarfar ríkissjóðs á undanförnum árum hafa útgáfur ríkissjóðs eingöngu miðast við óverðtryggð skuldabréf en Íbúðalánasjóður hefur hins vegar gefið út verðtryggð skuldabréf. Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar og hafa útgáfur hans því sambærilega stöðu og ríkissjóðs til vaxtamyndunar á markaði.
Í maí sl. var kynnt ný útgáfuáætlun sem miðaði að því að taka upp reglubundna útgáfu ríkisbréfa til tveggja ára og ríkisvíxla til 3ja mánaða. Fyrir voru flokkar ríkisbréfa til lengri tíma. Þessari útgáfu er ætlað að styðja við hagstjórn með því að tryggja að til staðar sé samfelldur óverðtryggður vaxtaferill allt að sjö árum. Þannig fást mikilvægar upplýsingar um væntingar í hagkerfinu sem nýtast m.a. við stjórn peningamála.
Á þessu ári er áfram gert ráð fyrir að útgáfa ríkissjóðs miðist við það að viðhalda markaðshæfni og styrkja vaxtamyndun með áframhaldandi útboðsfyrirkomulagi í samræmi við þá stefnumörkun sem kynnt var sl. vor. Áætlanir gera ráð fyrir að útgáfu verði mætt með innlausn flokka og uppkaupum á markaði.