Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Niðurstöður starfshóps um svifryksmengun og leiðir til úrbóta

Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, Hermann Tómasson, formaður bæajrráðs Akureyrar, og Kristín Sigfúsdóttir.
Á Akureyri

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra kynnti í dag skýrslu starfshóps umhverfisráðuneytisins um stöðu og þróun svifryksmengunar á höfuðborgarsvæðinu og mögulegar leiðir til úrbóta. Starfshópurinn var skipaður eftir að upplýsingar um mjög aukna svifryksmengun komu fram árið 2000.

Tillögur starfshópsins eru m.a. þær að takmarka beri notkun nagladekkja með efnahagslegum hvötum, skylt verði að setja sótsíur í öll stærri farartæki og vinnuvélar með díselvélar, kynning á ónegldum vetrardekkjum verði aukin og að mælistöðvum verði fjölgað og að hafnar verði reglulegar mælingar á svifryki á Akureyri. Þá er lagt til að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri taki mið af þeim aðgerðum sem eru á færi sveitarfélaga og meti hvort þörf sé á þvotti gatna, notkun á rykbindiefnum, að breyta hönnun niðurfalla eða umferðarmannvirkja eða nota slitsterkari yfirborð í vegi og setji í framkvæmd eftir þörfum. Að auki er bent á að augljóslega megi ná árangri með því að efla almenningssamgöngur svo og örva hjólreiðar og gangandi umferð með bættu stígakerfi.

Umhverfisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi á Akureyri í dag að skýrslan hafi verið rædd í ríkisstjórn og í kjölfarið hafi umhverfisráðuneytið hafið viðræður við samgönguráðuneytið og fjármálaráðuneytið um að hrinda tillögum starfshópsins í framkvæmd.

Umhverfisráðherra hefur lýst yfir mikilvægi almenningssamgangna í þéttbýli og þess að þær verði raunhæfur valkostur sem dragi úr heildarumferð. Sérstaklega beri að fagna ákvörðun Akureyringa um að fella niður fargjöld um síðustu áramót og þeim árangri sem hún hefur skilað, en farþegum Strætisvagna Akureyrar hefur fjölgað um 60% síðan þá. Slík aðgerð sé til þess fallin að draga úr heildarumferð og þar af leiðandi afar jákvæð fyrir loftgæði.

Á fundinum tóku einnig til máls Hermann Tómasson, formaður bæjarráðs Akureyrar, Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu og formaður starfshópsins, auk Kristínar Sigfúsdóttur sem kynnti niðurstöður mælinga á svifryksmengun á Akureyri.

Hér má nálgast skýrslu starfshópsins.

Fylgiskjal með skýrslunni (Svifryksmengun í Reykjavík árin 1995-2005).



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta