Golfstraumurinn veikist líklega, en stöðvast ekki
Niðurstöður úr 4. skýrslu Alþjóðlegu vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPCC) voru kynntar í síðustu viku, en þar kemur m.a. fram að hitastig á jörðinni muni líklega hækka um 1,8-4°C til loka aldarinnar og sjávarborð hækka um 28-43 sentimetra. Vísindin að baki niðurstöðunum eru flókin og ekki er síður flókið að túlka hnattræn meðaltöl þannig að segja megi til um líklegar afleiðingar loftslagsbreytinga á tilteknum svæðum.
Í september 2006 stóðu íslensk stjórnvöld fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík um samspil loftslagsbreytinga, hafstrauma og lífríkis hafsins á Norður-Atlantshafi. Markmið hennar var að draga fram bestu vísindalegu þekkingu sem til er varðandi lykilspurningar um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og svæðið á Norður-Atlantshafi. Ítarleg skýrsla frá ráðstefnunni hefur nú verið sett upp á vef ráðstefnunnar, auk stuttrar samantektar á lykilniðurstöðum. Þar kemur ýmislegt fram, sem m.a. er fróðlegt að skoða í ljósi hinnar nýju skýrslu IPCC. Nokkur lykilatriði sem fram komu á ráðstefnunni eru sett fram hér að neðan.
Loftslagsbreytingar og hafstraumar
- Höfin gegna lykilhlutverki varðandi loftslagsbreytingar sem helsti hitageymir jarðar og viðtaki koldíoxíðs. Höfin draga úr gróðurhúsaáhrifum með því að binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Aukinn skilningur á höfunum og hluverki þeirra varðandi loftslagsbreytingar er forgangsmál fyrir mannkynið.
- Niðurstöður loftslagslíkansins í Bergen benda til að hlýnun í lofthita við yfirborð jarðar norðan við 60°N verði um 5°C yfir meðalhita. Verulegar breytingar á loftslagi verða því á loftslagi á þessum slóðum á líftíma fólks sem nú er uppi, en ekki einungis á líftíma komandi kynslóða.
- Norður-Atlantshafið er núna “loftslagsvin” sem er mun hlýrri en önnur svæði á sömu breiddargráðum, vegna innstreymis hlýrra hafstrauma norður á bóginn. Hlýr yfirborðssjór streymir norður, kólnar síðan og sekkur til botns á hafsvæðinu norðan Íslands og austan við Grænland; þessi kaldi djúpsjór flæðir síðan suður á bóginn eftir botni Atlantshafsins. Þetta kerfi í heild er kallað “Meridional Overturning Circulation” (MOC), en meðal þátta þess eru Golf-straumurinn og botnstraumar sem flæða í suður. Þetta kerfi er viðkvæmt fyrir loftslagsbreytingum.
- Milt loftslag norðvestur Evrópu myndi breytast mjög til hins verra ef MOC-kerfið stöðvaðist. Merki um slíka stöðvun er að finna í loftslagssögunni og getum hefur verið að því leitt að aukin bráðnun Grænlandsjökuls og innstreymi ferskvatns þaðan á hafsvæðið norðan Íslands þar sem djúpsjávarmyndun fer fram gæti valdið slíkri röskun á MOC-kerfinu. Líkan á vegum Hadley-miðstöðvarinnar í Bretlandi bendir til þess að slík röskun myndi valda 3-5°C kólnun við norðvestur-Atlantshaf. Líkurnar á algjörri stöðvun Golf-straumsins innan næstu 100 ára eru þó taldar litlar.
- Mun meiri líkur eru taldar á því að hnattræn hlýnun hægi á MOC-kerfinu, en að það stöðvist alveg af þeim sökum. Tölvulíkön sýna mismunandi mikla minnkun á streymi hringrásarinnar, flest sýna hana um 20-30% fram til 2100. Slík minnkun á innstreymi hlýsjávar úr suðri myndi ekki leiða til kólnandi veðurfars á Íslandi, þar sem hlýnun lofthjúpsins myndi vega á móti þeim áhrifum og heldur betur. Athugunum á flæði MOC-kerfisins á mismunandi stöðum ber ekki alveg saman um hvort nú þegar hafi hægt á því eða ekki; þannig sýna mælingar á djúpsjávarstraumum við Færeyjar enga þróun í þá átt á undanförnum áratug. Betri vöktun á MOC er nauðsynleg.
- Haffræðirannsóknir við Ísland sýna sterkt innstreymi hlýs Atlantssjávar úr suðri, með merkjanlegri aukningu á hitastigi og seltu frá 1996.
Hafís og bráðnun Grænlandsjökuls
- Merkjanlegur samdráttur í útbreiðslu hafíss á norðurslóðum hefur orðið, sérstaklega síðan árið 2000. Vísbendingar úr fortíðinni benda til þess að hafísþekjan hafi verið fremur stöðug þar til á 6. áratug 20. aldar, þegar hún fór að hopa. Vakir hafa opnast í hafísnum í ágústmánuði á síðustu þremur árum þar sem þær hafa aldrei sést áður; slíkt kann að vera fyrirboði þeirrar þróunar sem búast má við í framtíðinni.
- Möguleikinn á að Grænlandsjökull bráðni af völdum hlýnunar er ein versta hugsanlega afleiðing loftslagsbreytinga af mannavöldum. Algjör bráðnun Grænlandsjökuls myndi valda hækkun á sjávarborði um 7 metra. Hröð bráðnun íss á Grænlandi virðist eiga sér stað nú og enn meiri aukning í þá átt myndi draga úr seltu hafsins í hafinu umhverfis Grænland, sem aftur myndi hafa áhrif á lagskiptingu sjávar og MOC-kerfið.
Lífríki hafsins og loftslagsbreytingar
- Loftslagsbreytingar hafa áhrif á lífríki hafsins og fiskstofna. Mikill sjávarhiti víða í Norður-Atlantshafi síðan 1990 hefur leitt til þess að suðlægar fisktegundir hafa fært sig norður á bóginn í Norðursjó um 7 km að meðaltali. Um 20 nýjar suðlægar tegundir hafa fundist á íslensku hafsvæði síðan 1996.
- Á síðustu árum hefur yfirborðssjór sem streymir inn á svæðið milli Grænlands og Noregs verið óvenju hlýr og saltur; mikið stökk var í þessa átt upp úr miðjum síðasta áratug 20. aldar. Ýmsar breytingar hafa orðið í vistkerfinu, sem rekja má að hluta eða öllu leyti til þessarrar þróunar. Þar má nefna breytingar á útbreiðslu og tegundasamsetningu svifs og innkomu sjaldgæfra suðlægra fisktegunda á hafsvæðið. Nýlega hafa síldarstofnar hafið að nýju göngu í færeyska og íslenska lögsögu og þorskur finnst í auknum mæli við Grænland. Erfitt er að segja til um hvort þessar breytingar séu hluti af langtímaþróun, eða tímabundnum sveiflum í hitafari á þessu svæði. Einnig er erfiðara en ella að spá fyrir um þróun fiskstofna, vegna þess að veiðar hafa mikil áhrif á viðgang margra þeirra, þannig að erfitt er að greina á milli áhrifa fiskveiða og breytinga í umhverfinu.
- Aukin súrnun hafanna vegna aukins styrks koldíoxíðs í andrúmsloftinu, sem höfin gleypa að hluta, veldur áhyggjum, þar sem hún kann að hafa áhrif á lífið í sjónum. Vöxtur ýmissa tegunda, s.s. kalkþörunga og kaldsjávarkóralla, er viðkvæmur fyrir súrnun umhverfisins. Afleiðingar þessa á vistkerfi sjávar í heild eru ekki vel þekktar, en mikill áhugi er á frekari rannsóknum á þessu efni.