Nr. 3/2007 - Landbúnaðarráðherra ræðir við framkvæmdastjórn ESB
Dagana 1.-2. febrúar 2007 átti Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, fundi í Brussel með tveimur af framkvæmdastjórum Evrópusambandsins til að ræða sameiginleg hagsmunamál í samskiptum ríkjanna.
Á fundi með Mariann Fischer Boel, framkvæmdastjóra ESB um landbúnaðar- og byggðamál, var rætt um nýgerðan samning milli Íslands og ESB um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur, en samningur þessi er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar matvælaverðs. Með samningnum veitir Ísland aðildarríkjum ESB umfangsmikla tollkvóta án aðflutningsgjalda fyrir kjöt, kjötvörur, kartöflur, rjúpur og ost. Í staðinn veitir ESB tollkvóta án aðflutningsgjalda fyrir lambakjöt, skyr, smjör og pylsur. Lagði landbúnaðarráðherra áherslu á skjóta afgreiðslu á samningnum af hálfu ESB, en samningurinn tekur gildi hérlendis þann 1. mars n.k. Einnig var rætt um frekari samningaviðræður um unnar landbúnaðarvörur skv. bókun 3 við EES-samninginn, sem hefjast munu síðar í þessum mánuði. Að lokum var rætt um þróun landbúnaðarstefnu ESB, m.a. í ljósi stækkunar sambandsins, og skipst á skoðunum um framgang yfirstandandi samningaviðræðna um landbúnaðarmál innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og áhrif þeirra á landbúnaðarstefnu Íslands og ESB.
Á fundi landbúnaðarráðherra með Markos Kyprianou, framkvæmdastjóra ESB um heilbrigðismál og neytendavernd, var rætt um væntanlega innleiðingu Íslands á matvælalöggjöf ESB og upptöku heilbrigðisreglna í landbúnaði, sem Ísland hefur fram að þessu haft undanþágu frá. Lagði ráðherra áherslu á stöðu dýraheilbrigðismála á Íslandi og að undanþágan héldi gildi sínu hvað varðar reglur og viðskipti með lifandi dýr. Gagnrýndi ráðherra að bann ESB við notkun á fiskimjöli í fóður jórturdýra hefði engar vísindalegar forsendur og fór þess á leit að sambandið endurskoðaði afstöðu sína í þeim efnum. Að lokum var samþykkt útvíkkun á þátttöku Íslands í fræðslustarfi á vegum ESB um öryggi matvæla.
Á meðan á dvöl hans í Brussel stóð átti landbúnaðarráðherra einnig fundi með fulltrúum frá Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til að kynna sér starfsemi þeirra um rekstur EES-samningsins.
Í landbúnaðarráðuneytinu,
5. febrúar 2007