Sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta fyrir aldraða
LSH (Landspítali-háskólasjúkrahús) hefur lagt fram áætlun um uppbyggingu sérhæfðrar þjónustu við aldraða með geðsjúkdóma í samræmi við stefnumótun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði nýlega á Alþingi fyrirspurn um það hvort fylgt hefði verið eftir ábendingum faghóps um bætta geðheilbrigðisþjónustu við aldraða en hópurinn skilaði ábendingum sínum í apríl s.l.
Í svari sínu sagði ráðherra m.a. um niðurstöður faghópsins: ,,Ég fór yfir þær ábendingar og tillögur og niðurstaða mín varð sú að byggja áherslur mínar í geðheilbrigðisþjónustu við aldraða á þeim. Að mínu mati er með þessu stigið stórt skref í stefnumótun sem boðar breytta og bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, og vinna við að hrinda verkefnunum í framkvæmd er þegar hafin.”
Í svari ráðherra kom fram að LSH hefur unnið framkvæmdaáætlun um uppbyggingu sérhæfðrar geðheilbrigðisþjónustu við aldraða í samræmi við þær tillögur faghópsins sem snúa að sjúkrahúsinu, en þar er miðað við að sett verði á fót ráðgjafarþjónusta á landsvísu sem starfrækt verði í tengslum við göngudeild, göngudeild með þjónustu geðlækna, sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga, og legudeild þar sem unnt yrði að taka á móti fólki sem þarf á slíkri þjónustu að halda.
Ráðherra sagðist fagna viðbrögðum LSH en tók fram að ráðuneytið og sjúkrahúsið ættu eftir að fara yfir áætlunina í sameiningu til að leggja lokahönd á útfærsluna og fara yfir kostnaðartölur: ,,Af minni hálfu verður lagt kapp á að ljúka þeirri vinnu hið fyrsta með það að markmiði að hefja starfsemi sem fyrst.
Eins og ég gat áðan um er einnig markmið að efla forvarnir og auka hlutverk heilsugæslu á sviði geðheilbrigðisþjónustu við aldraða. Það er óhætt að fullyrða að ráðgjafarþjónustan sem miðað er við að LSH muni sinna á eftir að gegna þýðingarmiklu hlutverki hvað þetta varðar. Hlutverk þjónustunnar verður að veita heilbrigðisstarfsfólki landsins upplýsingar og stuðning varðandi vandamál sem snerta geðsjúkdóma aldraðs fólks. Með þessu móti fær starfsfólk heilsugæslustöðvanna faglegan bakhjarl þar sem það getur sótt ráðgjöf og stuðning og byggt upp eigin þekkingu þegar fram í sækir.
Ég vil líka benda á að heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður flestra í heilbrigðisþjónustunni og ég hef lagt áherslu á það í stefnu minni varðandi öldrunarþjónustu að aukin áhersla verði lögð á reglubundnar heimsóknir heimilislækna til aldraðra sem njóta heimahjúkrunar. Ég hef vakið máls á þessu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þar hefur það hlotið góðar undirtektir.”