Námskeið um hlutverk og stöðu fulltrúa félagsmálanefnda
Félagsmálaráðuneytið heldur námskeið fyrir kjörna fulltrúa félagsmálanefnda um hlutverk þeirra og stöðu. Námskeiðin eru haldin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Björg Kjartansdóttir, deildarsérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, kennir á námskeiðunum ásamt Sigurði Óla Kolbeinssyni, sviðsstjóra lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Jönu Friðfinnsdóttur, lögfræðingi á lögfræðisviði sambandsins.
Eftir námskeiðið eiga þátttakendur að vera vel upplýstir um:
- hlutverk sitt, réttindi, skyldur og ábyrgð sem kjörnir fulltrúar í nefnd á vegum sveitarfélags,
- þann ramma sem lög um félagsþjónustu setja félagsþjónustu sveitarfélaga og það svigrúm sem hvert sveitarfélag hefur til að setja reglur og
- þær reglur sem gilda við meðferð mála í félagsmálanefndum.
Farið er yfir réttindi, skyldur og ábyrgð nefndarfulltrúa, þar með talið hæfisreglur, trúnaðarreglur og aðgang að gögnum, stjórnsýslulega stöðu og meðferð stjórnsýslumála, lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og hlutverk félagsmálanefndar, málsmeðferðarreglur félagsþjónustunnar og raunhæf verkefni og úrskurði.
Námskeið
6. febrúar/þriðjudagur Egilsstaðir 13.00–16.45
15. febrúar/fimmtudagur Borgarnes 16.30–21.00
19. febrúar/mánudagur Reykjanesbær 16.30–21.00
26. febrúar/mánudagur Vík í Mýrdal 16.30–21.00
5. mars/mánudagur Ísafjörður 15.00–18.45
9. mars/föstudagur Akureyri 12.30–16.30
15. mars/fimmtudagur Reykjavík 14.00–17.45
Þátttakendur geta valið það námskeið sem þeir telja henta sér best, burtséð frá landfræðilegri legu sveitarfélags. Æskilegast er þó að fulltrúar sem eru saman í nefnd mæti saman á námskeið. Skráningar fara fram hjá viðkomandi landshlutasamtökum. Vinsamlegast gefið upp heimilisfang og tölvupóstfang við skráningu svo hægt sé að senda námsefni fyrirfram til undirbúnings.
Þátttökugjald er 7.500 kr. Málsverður og kaffiveitingar eru innifalin í námskeiðsverði.