Jafnréttisgátlisti fyrir stefnumótun
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur svarað fyrirspurn frá Merði Árnasyni alþingismanni um jafnréttisumsögn með stjórnarfrumvörpum.
Svar ráðherra var svohljóðandi:
„Í þingsályktunum um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum frá árunum 1998 og 2004 er það markmið sett að samstarfshópur þriggja ráðuneyti kynni sér jafnréttisumsagnir með stjórnarfrumvörpum annars staðar á Norðurlöndum og í framhaldi af því verði stofnað til tilraunaverkefnis þar sem gefnar verða jafnréttisumsagnir um nokkur stjórnarfrumvörp frá þremur ráðuneytum. Þetta skyldi gert í því augnamiði að koma á reglubundnu mati á stjórnarfrumvörpum með tilliti til jafnréttis kynjanna. Því var slegið föstu að starfshópurinn myndi semja gátlista í þessu skyni.
Samstarfshópur þriggja ráðuneyta var skipaður en verkefnið þótti skarast nokkuð við verkefni forsætisráðuneytis um útgáfu gátlista til jafnréttismats á lagafrumvörpum og opinberri stefnumótun. Það var því ákveðið að bíða eftir útgáfu gátlistans. Við endurmat á verkefninu þótti ekki ástæða til að halda því áfram heldur hvetja ráðuneytin til að nýta sér jafnréttisgátlistann við gerð frumvarpa og aðra opinbera stefnumótun. Enn fremur lagði félagsmálaráðuneytið til að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða verði eitt af þeim atriðum er stjórnvöldum beri að líta til við endurskoðun laga og reglugerða undir verkefninu „einfaldara Ísland“.
Í samræmi við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 1998–2001 skipaði forsætisráðherra í nóvember 2000 nefnd til þess að fjalla um jafnrétti kynjanna við opinbera stefnumótun. Í skýrslu nefndarinnar er meðal annars að finna tillögu að jafnréttisgátlista sem lögð var til grundvallar í samvinnu forsætisráðuneytis og Jafnréttisstofu við nánari útfærslu verkefnisins. Ákveðið var að stytta listann og færa efnið í samfellt mál. Gátlistinn hefur að geyma fjóra meginþætti sem fela í sér spurningar ásamt skýringum.
Þegar sá er vinnur að stefnumótun í hvaða formi sem er hefur farið yfir listann er gert ráð fyrir að fengist hafi nokkuð skýr mynd af stöðu jafnréttismála í þeim málaflokki sem væntanleg stefnumótun tekur til. Auk gátlistans hefur verið sett upp sjálfsmat á rafrænu formi til frekari stuðnings fyrir þá sem koma að vinnu við stefnumótun í samræmi við kynja- og jafnréttissjónarmið.
Jafnréttisgátlistinn verður jafnframt gefinn út í formi bæklings. Á bakhlið hans verður enn fremur vísað til frekari upplýsinga um jafnréttismál á rafrænu formi. Bæklinginn sjálfan verður unnt að nálgast á rafrænu formi ásamt sjálfsmatinu á vefsíðu ráðuneytisins. Gátlistanum verður sérstaklega dreift til ráðuneytanna, Alþingis, stofnana og sveitarfélaga. Einnig verður þess óskað að ráðuneytin og sveitarfélögin sendi eintak af listanum til allra nefnda, ráða og stjórna á þeirra vegum sem vinna beint eða óbeint að opinberri stefnumótun.
Það er rétt að árétta að gátlisti er nytsamlegt tæki fyrir Alþingi, ráðuneyti, sveitarstjórnir, stofnanir, fyrirtæki og nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga til að tryggja að jafnréttissjónarmiða verði gætt við stefnumótunarvinnu en tæki til að auka jafnrétti eiga að vera aðgengileg stjórnendum á öllum sviðum. Gátlisti af þessu tagi var eitt af þeim tækjum sem nefnd um hlut kvenna í opinberri stefnumótun lagði til.
Ég er sammála háttvirtum fyrirspyrjanda um það að mikilvægt er að stjórnvöld og þeir sem koma að stefnumótun og smíði laga og reglugerða hafi jafnréttissjónarmið til hliðsjónar í sínum störfum. Á það vil ég leggja mikla áherslu og hef trú á því að gátlistinn sem ég hef nú greint frá verði þar raunverulegt tæki til breytinga.“