Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp sem tryggir betri sýn yfir vinnumarkaðinn

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Í júní síðastliðnum skipaði þáverandi félagsmálaráðherra starfshóp til að fara yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins auk fulltrúa félagsmálaráðuneytisins.

„Þar sem um yfirgripsmikinn málaflokk er að ræða er starfshópurinn enn að störfum en hlutverk hans er að fara yfir stöðu útlendinga sem starfa hér á landi, þar á meðal þeirra er starfa á grundvelli þjónusturéttarins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,“ sagði Magnús Stefánsson þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 6. febrúar sl. „En mikilvægt er að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga sem starfa hér á landi raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast á íslenskum vinnumarkaði.“

Stoðir vinnumarkaðskerfisins styrktar

Eitt af því sem starfshópurinn telur mikilvægt er að styrkja stoðir ríkjandi vinnumarkaðskerfis til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, þar á meðal að því er varðar erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagsvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar en fram til þessa hafa lög nr. 54/2001, um starfskjör starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, gilt um starfsmenn slíkra fyrirtækja. Samstaða náðist innan starfshópsins um nauðsyn þess að breyta þeim lögum en þegar upp var staðið þóttu breytingarnar vera það umfangsmiklar að rétt væri að leggja fram frumvarp til nýrra laga sem jafnframt myndu fella úr gildi lög nr. 54/2001.

Lagt er til að heiti nýju laganna verði í samræmi við þær breytingar á lögum 54/2001 sem lagðar eru til með frumvarpinu en lög 54/2001 hafa aðallega gilt um starfskjör starfsmanna erlendra fyrirtækja sem eru sendir tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu, en með frumvarpinu er lagt til að nýju lögin komi jafnframt til með að gilda um skyldur fyrirtækjanna til að veita íslenskum stjórnvöldum tilteknar upplýsingar varðandi starfsemi sína hér á landi. Þykir því eðlilegra að það komi fram í heiti laganna að þau eigi einnig við um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem veita þjónustu á Íslandi, en mikilvægt þykir jafnframt að undirstrika að lögin fjalli sérstaklega um starfskjör starfsmanna þeirra eins og lög 54/2001 hafa gert fram til þessa.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að erlend fyrirtæki sem hafa staðfestu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, öðrum EFTA-ríkjum eða Færeyjum og ætla, á grundvelli þeirra milliríkjasamninga sem að framan greinir, að senda starfsmenn í tenglsum við veitingu þjónustu hér á landi lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skuli veita Vinnumálastofnun tilteknar upplýsingar um starfsemi sína hér á landi.

Er miðað við að upplýsingarnar séu veittar eigi síðar en átta virkum dögum áður en þjónustan er veitt í hvert skipti. Þó er lagt til að fyrirtæki sem senda starfsmenn sína hingað til lands til að veita þjónustu hér í fjórar vikur eða skemur á hverjum tólf mánuðum verði undanskilin framangreindri upplýsingaskyldu enda feli þjónustan í sér sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerð tækja.

Enn fremur er fyrirtækjum sem veita þjónustu hér á landi samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum gert að hafa hér sérstakan fulltrúa sem kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins gagnvart stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins, en gert er ráð fyrir að þessi skylda hvíli á fyrirtækjum sem að jafnaði hafa sex eða fleiri starfsmenn á sínum vegum hér á landi.

Upplýsingar og eftirlit

Í frumvarpinu er lögð sú skylda á notendafyrirtæki hér á landi að ganga úr skugga um að erlend fyrirtæki sem þau hafa gert samninga við um veitingu þjónustu og falla undir gildissvið laganna hafi veitt Vinnumálastofnun þær grunnupplýsingar sem þeim ber að veita samkvæmt frumvarpinu en að öðrum kosti tilkynna um starfsemi þeirra til stofnunarinnar. Markmiðið með þessu er að tryggja enn frekar en nú er að íslensk stjórnvöld hafi yfirsýn um þá starfsemi sem fyrir hendi er á íslenskum vinnumarkaði en Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Þá er gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins komi til viðbótar gildandi lögum um starfsmannaleigur og gildi þannig einnig um starfsemi erlendra starfsmannaleigna hér á landi líkt og lög nr. 54/2001 hafa gert fram að þessu. Jafnframt þótti mikilvægt að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögunum um starfsmannaleigur til samræmis við almennan tilgang frumvarpsins.

Megintilgangur frumvarps þessa er að veita íslenskum stjórnvöldum betri sýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði að því er varðar starfsemi erlendra þjónustufyrirtækja hér á landi sem og fjölda erlendra starfsmanna er starfa hjá slíkum fyrirtækjum. Enn fremur er markmiðið að unnt sé að viðhalda því eftirliti sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði með að ákvæði laga og kjarasamninga séu virt svo treysta megi stöðu starfsmanna sem sendir eru tímabundið hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja í tengslum við veitingu þjónustu. Þykir efni frumvarpsins jafnframt vera til þess fallið að stuðla að því að útlendingar sem koma hingað tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja dvelji og starfi hér á landi með lögmætum hætti og að áreiðanlegar upplýsingar um þessa útlendinga verði til.

Heimildir eftirlitsaðila rýmkaðar

Frumvarpið gerir ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi eftirlit með framkvæmd laganna meðal annars með því að kalla eftir upplýsingum frá fyrirtæki í þágu eftirlits enda hafi stofnuninni borist rökstudd kvörtun um að fyrirtæki hafi brotið gegn ákvæðum laganna. Fari fyrirtæki ekki að fyrirmælum Vinnumálastofnunar þess efnis að fara að lögunum innan þess frests sem stofnunin veitir getur stofnunin krafist þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi fyrirtækisins hér á landi þangað til úrbætur hafa verið gerðar. Að auki er Vinnumálastofnun gert skylt að afhenda stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein og á viðkomandi svæði afrit af ráðningarsamningi starfsmanns óski stéttarfélagið eftir því og fyrir liggur grunur um brot á gildandi kjarasamningi. Er tilgangurinn með þessu ákvæði enn hinn sami, það er að viðhalda því eftirliti sem hefð er um að gildi í íslenskum vinnumarkaði.

„Framangreind atriði eru að mínu mati lykillinn að því að tryggja starfsfólki sem kemur hingað til lands eðlileg starfskjör í samræmi við íslensk lög, reglugerðir og kjarasamninga og stuðla þannig að heilbrigðri og eðlilegri samkeppni meðal atvinnurekenda um þau verkefni sem inna þarf að hendi í samfélaginu,“ sagði félagsmálaráðherra.

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarpið

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta