Skóflustunga að sambýli Styrktarfélags vangefinna
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýju sambýli Styrktarfélags vangefinna að Langagerði 122 í Reykjavík. Væntanlegir íbúar tóku skóflustungur sömuleiðis að viðstöddum aðstandendum sínum og öðrum gestum.
„Mér er það fagnaðarefni að fá tækifæri til þess að taka þátt í þeirri ánægjustund sem við eigum nú hér í Langagerðinu; upphafinu að byggingu nýrra og glæsilegra íbúða á vegum Styrktarfélags vangefinna,“ sagði Magnús Stefánsson við þetta tækifæri. „Enn einu sinni tekur félagið frumkvæði að því að bæta hag fatlaðs fólks með afar myndarlegum og framsæknum hætti.“
Á næsta ári er liðin hálf öld frá stofnun Styrktarfélagsins. Félagið kom á fót fyrstu dagvistarstofnuninni fyrir fötluð börn í Lyngási árið 1961 til þess að stuðla að því að þau gætu alist upp með eðlilegum hætti hjá foreldrum sínum í stað stofnanavistunar. Á síðastliðnu ári voru liðin 30 ár frá því að félagið stofnaði til fyrsta sambýlisins á höfuðborgarsvæðinu sem var upphafið að því að fatlað fólk eignaðist eiginlegt heimili líkt og aðrir þegnar þjóðfélagsins.
„Miðað við kröfur dagsins var þar nokkuð þrengra á þingi en nú,“ sagði ráðherra. „Íbúar hér í Langagerðinu munu eiga kost á fullbúnum íbúðum og friðhelgi heimilis síns eins og vera ber.“
Uppbygging er í fullu samræmi við stefnudrög félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra sem hafa verið í smíðum í rúm tvö ár og eru nú til kynningar á vefsíðu ráðuneytisins og með ýmsum öðrum hætti. Stefnt er að því að stefna ráðuneytisins í þessum efnum verði staðfest í lok næsta mánaðar. Þar er lögð áhersla á einstaklingsbundna þjónustu, friðhelgi heimilisins og einkalíf.
„Við ætlum okkur ekkert minna en að Ísland verði í fremstu röð meðal þjóða heims í þjónustu við fatlað fólk á næstu árum.“
Fyrir höndum er endurnýjun þjónustusamnings milli félagsmálaráðuneytisins, Svæðisskrifstofu Reykjavíkur og Styrktarfélags vangefinna.
„Það er fagnaðarefni að endurnýja slíkan samning við félag sem stendur svo vel og myndarlega að þeim verkefnum sem það tekur að sér í samvinnu við ríkisvaldið. Samstarfið hefur verið farsælt um langa hríð og framsækin viðhorf ráða för á báða bóga. Ég vil í því sambandi geta sérstaklega um það frumkvæði félagsins að hyggja að aðstæðum fatlaðra eldri borgara.“