Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfismál fái hliðstæða stöðu innan SÞ og öryggis-, friðarmál og efnahagsþróun

Á fundi umhverfisráðherra ríkja heims, sem nú stendur yfir í Nairobi í Kenya, hefur staða umhverfismála í heiminum verið til sérstakrar umfjöllunar. Þrátt fyrir fjölda alþjóðlegra samninga um umhverfisvernd, sem ríki heims hafa samþykkt síðastliðna fjóra áratugi, er staða umhverfismála slæm. Nægir í því sambandi að nefna losun gróðurhúsalofttegunda, minnkun líffræðilegrar fjölbreytni bæði á landi og í sjó og skort á heilnæmu neysluvatni víða um heim.

Framkvæmd hinna fjölmörgu alþjóðlegu samninga hefur almennt gengið illa og skýrir það að töluverðu leyti þá slæmu stöðu sem umhverfismálin eru nú í.

Umræður á fundinum hafa því einkum beinst að því hvernig hægt sé að snúa þróuninni við og treysta sjálfbæra þróun. Sérstaklega var rætt hvernig nýta megi hnattvæðinguna til að styðja umhverfisvernd og hvernig fjallað er um umhverfismál innan Sameinuðu þjóðanna og þá sér í lagi framtíðarstöðu Umhverfisstofnunar S.þ.

Framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO) tók þátt í umræðum um hnattvæðingu og umhverfisvernd og hvatti til aukinna tengsla umhverfismála og alþjóðlegra viðskipta þannig að þessir tveir málaflokkar styddu hver annan. Á fundinum kom fram mikill stuðningur við að Umhverfisstofnun S.þ. og Alþjóðaviðskiptastofnunin myndu auka samstarf sitt. Í því sambandi var m.a. nefnt dæmi um háa innflutningstolla af nýrri umhverfisvænni tækni sem hindruðu að slík tækni yrði innleidd í þróunarríkjunum og hamlaði þar með umhverfisvernd.

Á fundinum var sterkur samhljómur um að staða umhverfismála innan S.þ. væri of veik með tilliti til hinna miklu hagsmuna sem þjóðir heims hafa af vernd vistkerfa jarðarinnar. Þúsaldarmat S.þ. á stöðu vistkerfa frá 2006 og nýleg skýrsla Nicholas Stern um efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga leiddu í ljós að frekari hnignun vistkerfa myndu hafa varanleg áhrif á efnahagskerfi ríkja heims og því væri mikilvægt að umhverfismál fengju hliðstæða stöðu innan S.þ. og öryggis- og friðarmál og efnahagsþróun. Styrkja þyrfti Umhverfisstofnun S.þ. verulega og gera stofnuninni kleift að sinna mun betur leiðandi hlutverki í umhverfismálum og leiðbeina og aðstoða þróunarlönd við framkvæmd alþjóðlegra samninga.

Meðal annarra mála, sem rædd eru á fundinum, er tillaga um gerð alþjóðlegs samnings um takmörkun á losun kvikasilfurs út í umhverfið. Ísland er meðflytjandi þeirrar tillögu ásamt Noregi, Sviss, Gambíu og Senegal. Tillögunni hefur almennt verið vel tekið en einkum tvö ríki hafa lagst gegn samþykkt hennar.

Hægt er að fylgjast með framvindu fundarins á heimasíðu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta