Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Leyfisveitingar í veitinga- og gistihúsarekstri einfaldaðar

Í frumvarpi sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun er meðal annars gert ráð fyrir verulegri einföldun á leyfisveitingum í atvinnugreininni.

Tilurð frumvarpsins á sér langan aðdraganda. Frumvarpið er afrakstur vinnu samgönguráðuneytis og dómsmálaráðuneytis með aðkomu fulltrúa umhverfiráðuneytis og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Við samningu frumvarpsins var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila, bæði leyfishafa og ekki síst leyfisveitendur, sérstaklega Reykjavíkurborg og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu en þessir aðilar eiga aðkomu að langflestum leyfisveitingum á þessu sviði.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi:

 

         Yfirstjórn mála er varða veitinga- og gististaði flyst til dómsmálaráðuneytisins.

         Núverandi veitinga- og gistileyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi eru sameinuð í eitt leyfi sem kallast rekstrarleyfi. 

         Áfram þarf byggingarleyfi sveitarstjórnar þar sem það á við og er gert að skilyrði að það liggi fyrir við umsókn. Einnig þarf áfram starfsleyfi heilbrigðisnefnda og er það ófrávíkjanlegt  skilyrði rekstrarleyfis.

         Umsóknarferlið er einfaldað og möguleiki gefinn á rafrænu ferli og rafrænni gagnaöflun þar sem því verður við komið. Einnig er gagnaöflun takmörkuð við umsækjanda og forsvarsmann lögaðila eingöngu.

         Gildistími rekstrarleyfis er fjögur ár og þar með ekki lengur um að ræða mismunandi gildistíma mismunandi leyfa eins og samkvæmt gildandi lögum.

         Endurnýjunarferli er einnig einfaldað til muna og lagt til að hægt verði að endurnýja leyfið, án þess að fram þurfi að fara umfangsmikil gagnaöflun eða umsagnaferli eins og samkvæmt gildandi lögum, hafi rekstur verið í lagi á leyfistíma. 

         Viðurlög vegna brota eru gerð skýrari og lögreglu gert skylt að loka stöðum sem stunda starfsemi sem ekki er rekstrarleyfi fyrir eða samrýmast ekki gildandi rekstrarleyfi. 

         Tryggingar sem handhafar áfengisveitingaleyfis þurfa nú að leggja fram eru afnumdar þar sem hér var um sérstaka tryggingu að ræða sem almennt enginn annar atvinnurekstur býr við enda ekki trygging vegna neytendaverndar.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta