Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar. Markmið laganna er að stuðla að sjálfbærri þróun, sjálfbærri nýtingu umhverfis, samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið og að draga úr umhverfisáhrifum ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfi, með hag núlifandi og komandi kynslóða að leiðarljósi.

Liður í því að ná þessum markmiðum er að lögfesta nokkrar af mikilvægustu meginreglum umhverfisréttarins. Þær eru reglan um samþættingu; reglan um fyrirbyggjandi aðgerðir; reglan um lausn við upptök; varúðarreglan og mengunarbótareglan.

Reglan um samþættingu: Samþætta skal sjónarmið um umhverfisvernd við önnur sjónarmið þegar undirbúnar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfið. Reglan um samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið er af mörgum talin kjarni sjálfbærrar þróunar og má það til sanns vegar færa. Í 4. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar segir:

Til þess að af sjálfbærri þróun geti orðið verður umhverfisvernd að vera óaðskiljanlegur liður í þróunarferlinu og því er ekki hægt að slíta hana úr samhengi við það.

Meginreglan er ítrekuð og útfærð í mörgum nýlegum alþjóðlegum samningum sem varða umhverfisvernd. Sem dæmi má nefna að samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar ber samningsaðilum að samþætta aðgerðir sem miða að loftslagsvernd við aðra opinbera stefnumörkun og áætlanagerð.

Reglan um fyrirbyggjandi aðgerðir: Þegar teknar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfið skal eins og mögulegt er drag úr, minnka eða koma í veg fyrir áhrifin og að umhverfi skerðist að magni eða gæðum. Markmiðið sem býr í meginreglunni er að fyrirbyggja eða koma í veg fyrir að umhverfi verði fyrir varanlegri skerðingu sem ómögulegt eða óraunhæft er að bæta úr síðar. Að baki liggur vitneskja um óæskileg umhverfisáhrif verði ekki gripið til ákveðinna fyrirbyggjandi aðgerða og að þörf sé á ákveðnum verndaraðgerðum, jafnvel þótt þær hafi í för með sér einhverjar takmarkanir á eignarráðum eða athafnafrelsi einstaklinga og lögaðila.

Reglan um lausn við upptöku: Umhverfisvandamál skal eins og kostur er leysa þar sem þau eiga upptök sín og að forðast beri að færa þau til í umhverfinu. Meginreglan endurspeglast m.a. í kröfum sem settar eru um magn ýmissa mengandi efna sem heimilt er að sleppa í viðtaka og að nota skuli mengunarvarnarbúnað í því skyni að takmarka mengun umhverfisins þar sem mengunin verður til eða á upptök sín.

Varúðarreglan: Þegar hætta á alvarlegum eða óafturkræfum áhrifum á umhverfi og náttúruauðlindir skal skortur á vísindalegri fullvissu ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem geta komið í veg fyrir eða dregið úr áhrifum. Ein þekktasta útgáfa varúðarreglunnar er í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar:

Í því skyni að vernda umhverfið skulu ríki í ríkum mæli beita varúðarreglunni eftir því sem þau hafa getu til. Skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skal ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.

Greiðslureglan (mengunarbótareglan): Í því skyni að tekið sé tillit til umhverfiskostnaðar skal beita hagrænum stjórntækjum í samræmi við meginregluna um að sá sem mengar beri að jafnaði þann kostnað sem hlýst af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum vegna mengunar. Að baki reglunni býr það sjónarmið að gera mengunarvald ábyrgari og meðvitaðri um ábyrgð sína sem er öðrum þræði samfélagsleg. Samtímis hvetur þessi nálgun mengunarvald til þess að þróa betri tækni og framleiðsluaðferðir og jafnar loks samkeppnisaðstöðu fyrirtækja, sérstaklega á alþjóðlegum markaði.

Samþætting innan Stjórnarráðs Íslands

Unnið verður að markmiðum laganna með því að útfæra meginreglur umhverfisréttarins nánar í löggjöf sem áhrif hefur á umhverfi og beita þeim þegar undirbúnar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfi.

Umhverfisráðuneytið fer með ýmsa málaflokka sem í daglegu tali eru nefnd umhverfismál. Undir verksvið umhverfisráðuneytis falla málefni sem varða m.a. náttúruvernd, þ.m.t. vernd vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni og erfðaauðlinda, þjóðgarða, friðunar- og uppgræðsluaðgerðir, rannsóknir og umhverfisvöktun, mengunarvarnir, hollustuhætti, eiturefni og hættuleg efni, matvæli, skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum, byggingarmál og brunavarnir, veðurþjónustu, dýravernd og stjórn veiða á villtum fuglum og villtum landspendýrum, loftslagsvernd og loks landmælingar og kortagerð. Hins vegar eru ábyrgð og framkvæmd nokkurra þátta umhverfismála á verksviði annarra ráðuneyta en umhverfisráðuneytis, fyrst og fremst sjávarútvegsráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis.

Ávinningur lögfestingar meginreglna umhverfisréttar

Ávinningur þess að lögfesta meginreglur umhverfisréttarins er margþættur:

• Í fyrsta lagi verða í einum lagabálki nokkrar af mikilvægustu reglum umhverfisréttarins. Þetta auðveldar undirbúning allra ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfi, þ.m.t. undirbúning nýrrar löggjafar, reglugerða og ákvarðanatöku í einstökum tilvikum.

• Í öðru lagi er leitast við að skýra meginreglurnar og gera grein fyrir helstu röksemdum sem að baki þeim búa. Jafnframt eru veittar upplýsingar um hvernig meginreglurnar hafa verið útfærðar og þeim beitt, m.a. af dómstólum.

• Í þriðja lagi verður auðveldara að vinna að sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu umhverfis og einstakra þátta þess þar sem nokkrar af meginreglunum hafa beinlínis verið þróaðar með þessi markmið í huga.

• Í fjórða lagi verður að hafa meginregluna um samþættingu umhverfissjónarmiða sérstaklega í huga. Reglan er ein mikilvægasta regla umhverfisréttarins og hefur þróast vegna sérstöðu málaflokksins og þeirrar staðreyndar að ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfi eru undirbúnar og teknar af mörgum stjórnvöldum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta