Styrkur til Noregsfarar
Stjórn sjóðsins Þjóðhátíðargjöf Norðmanna auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum vegna Noregsferða á árinu 2007.
Samkvæmt skipulagsskrá fyrir sjóðinn er tilgangur hans „að auðvelda Íslendingum að ferðast til Noregs. Í þessu skyni skal veita viðurkenndum félögum, samtökum og skipulögðum hópum ferðastyrki til Noregs í því skyni að efla samskipti þjóðanna, t.d. með þátttöku í mótum, ráðstefnum eða kynnisferðum, sem efnt er til á tvíhliða grundvelli“. Ekki eru veittir styrkir til þátttöku í fjölþjóðlegum mótum, þ.m.t. samnorrænum sem haldin eru til skiptis á Norðurlöndum, og ekki er úthlutað ferðastyrkjum til einstaklinga eða þeirra sem eru styrkhæfir af öðrum aðilum.
Í skipulagsskránni segir einnig, að áhersla skuli lögð á að veita styrki, sem renna til beins ferðakostnaðar, en umsækjendur beri sjálfir dvalarkostnað í Noregi.
Hér með er auglýst eftir umsóknum frá aðilum sem uppfylla framangreind skilyrði. Umsóknum skal skila á eyðublaði sem er á heimasíðu forsætisráðuneytisins, www.forsaetisraduneyti.is/thjodhatidargjof/. Einnig má nálgast eyðublaðið hjá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, sími 545-8460.
Umsóknum óskast beint til stjórnar sjóðsins og sendar Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, Hverfisgötu 6, 5. hæð, 150 Reykjavík, fyrir 17. mars 2007.
Í forsætisráðuneytinu, 11. febrúar 2007